Kosið í dreifbýlisráð
Seinni kjörfundur vegna kosninga í dreifbýlisráð fer fram nk. laugardag, 23. september í Félagsheimilinu Skildi í Helgafellssveit.
Kosningarrétt í kosningu til dreifbýlisráðs hafa íbúar innan sveitarfélagamarka Helgafellssveitar eins og þeim er lýst á sveitarfélagakorti Landmælinga Íslands frá 2014 og íbúar með búsetu í Ögri.
Kjörgengur í dreifbýlisráð er hver sá sem hefur skráð lögheimili í þeim hluta sveitarfélagsins sem lýst er hér að ofan.
Fyrri kjörfundur var 9. september sl. en sá síðari fer fram nú á laugardaginn, 23.september kl. 12:00-18:00, í Félagsheimilinu Skildi
Aðsetur kjörstjórnar verður á kjörstað og hefst talning eftir að kjörstað hefur verið lokað 23. september nk. Sveitarstjórn kynnir niðurstöðu talningar á vefsíðu sveitarfélagsins, stykkisholmur.is.
Aðdragandi kosninga
Í aðdraganda sameiningar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar lagði samstarfsnefnd til að sett yrði á fót sérstakt dreifbýlisráð til tryggja áhrif íbúa í dreifbýli á stjórnsýslu sameinaðs sveitarfélags og koma til móts við áhyggjur íbúa svæðisins.
Dreifbýlisráð skal skipað annars vegar einum fulltrúa og öðrum til vara kjörnum af sveitarstjórn og skulu þeir vera aðalfulltrúar í sveitarstjórn og hins vegar tveimur fulltrúum og tveimur til vara kosnum í beinni kosningu af íbúum í dreifbýlinu. Ragnar Ingi, bæjarfulltrúi, er tilvonandi fulltrúi bæjarstjórnar í dreifbýlisráði, en einn fulltrúi úr dreifbýlisráði er skipaður af bæjarstjórn líkt og segir hér að ofan og er hann tengiliður ráðsins við bæjarstjórn.
Strax í upphaf þessa kjörtímabils hófst undirbúningur hins sameinaða sveitarfélags á breytingum á samþykkt um stjórn þess og var gengið frá þeim breytingum með síðari umræðu í ágúst 2022. Í kjölfarið kom í ljós að um sumarið hafði verið lögfest lagaákvæði sem kvað um setningu reglna um framkvæmd íbúakosninga sveitarfélaga og til að tryggja að íbúakosning á vegum sveitarfélags uppfylli grundvallarskilyrði um lýðræðislegar kosningar skuli ráðuneytið setja reglugerð að höfðu samráði við landskjörstjórn þar sem mælt er fyrir um þau lágmarksatriði sem fram skulu koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar, sbr. 4. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 83/2022.
Frá þeim tíma kallaði sveitarfélagið reglulega eftir setningu umræddrar reglugerðar þannig að löglega væri hægt að halda íbúakosningu og setja umrætt dreifbýlisráð á fót. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, staðfesti loks nýja reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga sem fjallar um þau lágmarksatriði sem þurfa að koma fram í reglum sveitarfélaga um framkvæmd íbúakosninga. Reglugerðin tók gildi 1. apríl 2023 og gat sveitarfélagið í kjölfar þess haldið vinnunni áfram.
Reglur um kosningu í dreifbýlisráð í Sveitarfélaginu Stykkishólmi tóku gildi 8. júní 2023 með birtingu í b-deild Stjórnartíðinda. Á fundi bæjarstjórnar þann 29. júní 2023 var samþykkt að boða til kosninga í dreifbýlisráð dagana 9. – 23. september nk.