Fara í efni

Jólasveinaratleikur 2022

09.12.2022
Fréttir

Í ár hefur Þjónustumiðstöðin með Jóni Beck, verkstjóra, í broddi fylkingar sett upp jólasveinaratleik. Um er að ræða skemmtilega viðbót í jólaskreytingar bæjarins þar sem tækifæri gefst til að arka um Stykkishólm og leita að jólasveinunum sem eru í ýmsum erindagjörðum fyrir jólin og munu birtast hér og þar um bæinn, einn af öðrum. Ratleikurinn hefst mánudaginn 12. desember með komu Stekkjastaurs samkvæmt gamalli hefð og endar með komu Kertasníkis á Aðfangadag 24. desember.

Nú er því um að gera að drífa sig út að leita að Stekkjastaur en hann geymir svo vísbendingu um hvar megi finna næsta svein á morgun. Vísbendingin er þessi:

Stekkjastaur finnst gaman að hitta gamla fólkið, hvert ætli hann fari?

Stekkjastaur kemur fyrstur jólasveinanna. Hann var sagður sjúga mjólk úr kindum en hafði staurfætur á báðum svo heldur gekk það brösuglega. Stekkur er gamalt heiti á sérstakri fjárrétt og þaðan dregur sveinninn nafn sitt.

Stekkjastaur er á þvælingi um Stykkishólm, en hvar?
Getum við bætt efni síðunnar?