Jólaljós tendruð í Hólmgarði í dag
Í dag, föstudaginn 1. desember, verða ljósin tendruð á jólatrénu við hátíðlega athöfn í Hólmgarði. Viðburðurinn hefst kl 18:00 og verður með hefðbundnu sniði. Kvenfélagið selur heitt súkkulaði og smákökur, nemendur 1. bekkjar tendra ljósin og hver veit nema nokkrir rauðklæddir láti sjá sig.
Undanfarin ár hefur sveitarfélagið gefið íbúum kost á því að kjósa sér jólatré í Hólmgarðinn. Valið hefur staðið milli sitkagrenis og stafafuru úr Sauraskógi og ljóst að Hólmarar eru hrifnari af greninu þar sem fylgi furunnar hefur ekki mælst hátt í kosningum síðustu ára. Í ár varð breyting á þessu fyrirkomulagi og valdið sett í hendur nemenda 4. bekkjar grunnskólans. Fjórði bekkur fór á dögunum í Sauraskóg og valdi jólatréð í ár í samvinnu við Björn Ásgeir, formann skógræktarfélagsins. Jólatréð í ár er stórglæsilegt sitkagreni úr Sauraskógi.