Jólahugleiðing: Jóla- og nýárskveðja frá bæjarstjóra
Senn gengur jólahátíðin í garð og er undirbúningur hennar hafinn hjá flestum. Í myrkasta skammdeginu tendrum við jólaljós sem loga og lýsa okkur í gegnum þennan dimmasta tíma ársins sem merki um upprisu ljóssins.
Minningar jólanna
Þegar ég hugsa um jólin koma sterkast fram minningar jólanna frá því ég var barn. Ég hugsa til eftirvæntingar, samverustunda, hefðanna um jólin og ljúfra tilfinninga; ástar, kærleika og friðar. Ég var alinn upp í kristilegu umhverfi hér í Stykkishólmi þar sem jólin hófust kl. 18:00. Þegar ekki var gengið til kirkju var hlustað á kirkjuklukkur Dómkirkjunnar í Reykjavík hringja inn jólin á RÁS 1 og í kjölfarið var hlustað á guðsþjónustuna. Í mínum huga hefst jólahátíðin sjálf enn í dag stundvíslega klukkan 18.00 á aðfangadagskvöldi, eftir að kirkjuklukkur Dómkirkjunnar hringja inn jólin, þó svo að undirbúningurinn fyrir jólin sé oft jafn mikilvægur þáttur í hátíðinni og hátíðin sjálf. Strax með aðventunni kemur eftirvænting til þess yndislega tíma sem jólin eru. Tíma sem magna upp náungakærleik okkar allra og við finnum frið og kærleika í hjarta, njótum samverustunda með þeim sem okkur þykir vænt um, útbúum gjafir handa okkar nánustu, sendum kveðjur til fjölskyldu og vina og skreytum og lýsum upp okkar nærumhverfi.
Jólin eru tími huglægra gilda
Jólin minna okkur á það sem skiptir máli þegar allt og dýpst er skoðað. Minna okkur á hvað það er sem fyrst og fremst gefur lífinu gildi. Þau eru óáþreifanleg í þeim skilningi að þau snúast fyrst og fremst um hið huglæga. Um huglæg verðmæti eins og ást, frið og djúpa gleði. Má því segja að jólahátíðin geti verið viss áminning til okkar um hvar á lífsleiðinni liggi hinir sönnu gleðigjafar. Um það snúast jólin fyrir mér og eru þau þannig vegvísir minn allt árið um kring um það sem skiptir mestu máli í lífinu.
Þakklæti efst í huga
Þakklæti er mér efst í huga þessi jólin, líkt og svo oft áður, en þó þakklæti sé mikilvægt í hinu daglega lífi og hjálpi hverjum og einum að njóta betur hins smáa og hversdagslega, þá geta jólin jafnframt verið okkur sérstök áminning í þeim efnum líka. Maður verður nefnilega aldrei of oft minntur á það að vera þakklátur fyrir allt sem maður hefur í lífinu. Ég finn fyrir ómældu þakklæti til þeirra sem standa mér næst; barnanna minna, maka, fjölskyldu og annarra ástvina. Þakklæti fyrir ágæta heilsu. Jafnframt þakklæti fyrir þær minningar sem ég geymi um þá sem ég hef misst og sakna. Og nú síðast en ekki síst þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að leggja hönd á plóginn við uppbyggingu og stefnumótun fyrir samfélag sem er manni svo afar kært. Þakklæti fyrir hlýjar móttökur. Þakklæti fyrir þann stuðning og þá vináttu sem mér hefur mætt. Þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að gegna þessu starfi.
Áskoranir á nýju ári
Árið sem senn er að líða hefur verið viðburðarríkt og framtíð Stykkishólmsbæjar er björt. Hér er hátt atvinnustig, atvinnuvegir traustir og fyrirtaks þjónusta við íbúa. Stykkishólmsbær byggir á góðum og traustum grunni, grunni sem byggður var upp af fólki sem dró hvergi af sér við uppbyggingu samfélagsins með metnaðarfulla framtíðarsýn að leiðarljósi og njótum við góðs af því í dag í okkar góða og farsæla samfélagi. Á nýju ári taka svo við nýjar áskoranir, ný krefjandi og skemmtileg verkefni, sem kalla bæði á fyrirhyggju og skynsemi, ásamt frekari tækifærum og viðfangsefnum til þess að gera Stykkishólmsbæ að enn betra samfélagi en það er í dag.
Ég tek öllum áskorunum, tækifærum og viðfangsefnum ársins 2019 fagnandi og hlakka til að takast á við verkefni komandi árs. En mikilvægasta og í senn skemmtilegasta verkefnið hjá mér á nýju ári verður án efa það að taka á móti mínu þriðja barni sem við Soffía eigum von á í febrúar. Við Soffía höfum komið okkur vel fyrir í Hjallatanganum og þar bíður heimili fullt eftirvæntingar eftir nýja prinsinum, ásamt systkinum hans og fjölskyldu okkar allri.
Njótum þess huglæga: ástar, kærleika, friðar og djúprar gleði
Það er þó með sérstakri eftirvæntingu sem ég bíð jólanna í ár, enda verður þetta í fyrsta skipti í 20 ár sem ég mun halda aðfangadag í Stykkishólmi. Eflaust munu margar minningar frá gömlum tímum skjóta upp kollinum þegar klukkurnar í Dómkirkjunni hringja inn jólin á aðfangadag, en sama hvernig það fer þá munu jólin og jólahátíðin í heild sinni, nú sem áður, fyrst og fremst snúast um að njóta þess að vera með þeim sem ég elska og hugsa til þeirra sem ég sakna. Að njóta þess huglæga: ástar, kærleika, friðar og djúprar gleði.
Ég vil að lokum þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og óska öllum Hólmurum og nærsveitungum gleðilegra jóla, friðar og farsældar á nýju ári.
Jakob Björgvin Jakobsson
Bæjarstjóri