Fara í efni

Íþróttamiðstöðin í Stykkishólmi 30 ára

06.11.2020
Fréttir

Þann 10. nóvember nk. verður íþróttamiðstöðin í Stykkishólmi 30 ára, en íþróttamiðstöðin var vígð við hátíðlega athöfn laugardaginn 10. nóvember 1990. Framkvæmdir hófust hinsvegar 22. maí 1987 þegar þáverandi menntamálaráðherra, Sverrir Hermannsson, tók fyrstu skóflustunguna.

Þennan sama dag, 22. maí 1987, staðfesti þáverandi félagsmálaráðherra tilskipun um bæjarréttindi Stykkishólmshrepps, sem þar með varð Stykkishólmsbær frá þeim degi.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu og gildandi takmarkana sem óheimila íþróttastarf og sundsókn landsmanna verður minna um dýrðir nú en fyrir 30 árum síðan. Þeir sem aldur hafa til geta eflaust rifjað upp hátíðarhöldin við vígslu íþróttahússins og minnst þess þegar Ágúst Bjartmars, fyrrverandi Íslandsmeistari, og Ellert Kristinsson mættust í æsispennandi badmintonviðureign í tilefni dagsins.

Aðrir sem misstu af hátíðarhöldunum þann 10. nóvember 1990 geta lesið um þau hér sér til yndisauka.

Mikil uppbygging á skömmum tíma

Á einungis níu árum tók Stykkishólmsbær í notkun íþróttahús, árið 1990, íþróttavöll, árið 1996 og nýja sundlaug, árið 1999, enda hafa Hólmarar verið íþróttasinnaðir í aldanna rás og náð merkum áföngum á hinum ýmsu sviðum íþróttanna. Sundlaugin var vígð þann 13. ágúst árið 1999, en fyrsta skóflustungan að henni var tekin 19. september 1997. Haldið var uppá 20 ára vígsluafmæli sundlaugarinnar á síðasta ári og flutti þá Ellert Kristinsson ávarp þar sem hann rak byggingarsögu sundlaugarinnar og hvernig allar forsendur skyndilega breyttust þegar heita vatnið fannst.

Hér að neðan má sjá myndir frá því þegar fyrsta skóflustungan var tekið að íþróttahúsinu, myndirnar færði Elín Sigurðardóttir Stykkishólmsbæ að gjöf.

Sjá einnig:

20 ár liðin frá vígslu sundlaugarinnar

Ný sundlaug tekin í notkun í Stykkishólmi

Kaupstaðarréttindi og nýtt íþróttahús

Getum við bætt efni síðunnar?