Fara í efni

Íbúafundur um skýrslu ráðgjafanefndar um þörungavinnslu

24.05.2019
Fréttir

Boðað er til íbúafundar þriðjudaginn 28. maí nk. kl. 18:00 í Amtsbókasafni Stykkishólms um niðurstöðu ráðgjafanefndar vegna áhuga á rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi.

Hugmyndir og áform um þangvinnslu í Stykkishólmi hafa verið til umræðu og meðferðar í Stykkishólmi um nokkurra ára skeið. Um er að ræða hugmyndir að nýtingu auðlinda Breiðafjarðar og atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi, nánar tiltekið nýtingu þangs í Breiðafirði, þar sem hugmyndir um sjálfbæra nýtingu auðlinda fjarðarins hefur verið grundvöllur samtals við þau fyrirtæki sem hafa sýnt verkefninu áhuga. Tvö fyrirtæki hafa farið þess á leit við bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar að bærinn hefji formlegar viðræður um skipulagningu atvinnusvæðis fyrir þörungavinnslu í Stykkishólmi, annars vegar hið kanadíska Acadian Seaplants Ltd. og hins vegar Íslenska kalkþörungafélagið ehf., sem er í írskri eigu.
Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar 13. desember 2018 var skipuð ráðgjafarnefnd vegna áhuga á rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi, en samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var hlutverk hennar m.a. að fara yfir og meta fyrirliggjandi gögn varðandi fyrirhugaða starfsemi og leggja mat á kosti og galla sem snúa að henni, fjárhagslegan ávinning bæjarins af fyrirhugaðri starfsemi ef af verður, að útfæra og koma með tillögur að viðmiðum Stykkishólmsbæjar í áframhaldandi viðræðum og að gera tillögu að staðsetningu á starfseminni og hugsanlegum breytingum á skipulagi í því sambandi. Nefndin hefur lokið störfum og skilað greinargerð ásamt niðurstöðum til bæjarstjórnar.
Nefndin var skipuð eftirfarandi einstaklingum sem eru allir íbúar í Stykkishólmi:

  • Ásgeir Gunnar Jónsson, formaður félags æðarbænda við Breiðafjörð
  • Guðbjörg Egilsdóttir, atvinnurekandi
  • Halldór Árnason, hagfræðingur, formaður nefndarinnar
  • Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á
    Snæfellsnesi
  • Jón Helgi Jónsson, landeigandi og þangsláttumaður
  • Kári Geir Jensson, sjómaður og þangsláttumaður
  • Ólafur Örn Ásmundsson, fulltrúi grásleppusjómanna
  • Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands
  • Sæþór Heiðar Þorbergsson, atvinnurekandi
  • Unnur María Rafnsdóttir, atvinnurekandi

Á íbúafundinum mun bæjarstjóri fara lauslega yfir aðdraganda og framvindu í tengslum við áform um þangvinnslu í Stykkishólmi og þá mun Halldór Árnason, formaður ráðgjafanefndarinnar, kynna niðurstöðu skýrslu nefndarinnar. Á sama tíma verður skýrslan gerð opinber á heimasíðu Stykkishólmsbæjar. 

Íbúar eru hvattir til þess að mæta til fundarins.
Jakob Björgvin Jakobsson,
bæjarstjóri Stykkishólsbæjar

Smellið hér til að sjá viðburðinn á Facebook.



Getum við bætt efni síðunnar?