Íbúafundur 5. desember
Mánudaginn 5. desember kl. 17:00 verður haldinn íbúafundur á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi. Til umræðu og kynningar á fundinum verður: nafn sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar, markmið fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og helstu lykiltölur og loks sorpmál og fyrirhugaðar breytingar í flokkun og endurvinnslu.
Nafn sveitarfélagsins
Bæjarstjórn samþykkti á 4. fundi sínum að boða til íbúafundar vegna nafns á nýja sveitarfélaginu, kynna greinargerð Örnefnanefndar og bjóða til samtals um niðurstöðu Örnefnanefndar og fyrirliggjandi tillögur.
Fjárhagsáætlun
Bæjarstjóri gerir grein fyrir markmiðum fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og helstu lykiltölum.
Sorp- og endurvinnslumál
Umfangsmiklar lagabreytingar voru samþykktar á Alþingi í júní 2021 um flokkun og endurvinnslu, hollustuhætti, mengunarvarnir, úrvinnslugjald og fleira. Þessar breytingar koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.
Forsvarsmenn Íslenska gámafélagsins mæta til fundar og kynna þær breytingar sem fyrir höndum eru ásamt væntanlegum þjónustubreytingum o.fl. hjá sveitarfélaginu vegna þessa.
Breytingin felur m.a. í sér að heimilum verður skylt að flokka í fjóra flokka en ekki þrjá eins og gert hefur verið í Hólminum undanfarin ár, plast og pappi verður nú aðskilið. Þeir möguleikar eru því fyrir hendi að taka upp fjórðu tunnuna eða notast áfram við þrjár en þar af væri þá ein tvískipt. Græna tunnan hefur leikið marga grátt þar sem hún vill fyllast fljótt þar sem íbúar standa sig vel í flokkun. Því getur fjórða tunnan verið freistandi þar sem íbúar gætu þá flokkað í tvær tunnur það sem áður fór í eina græna.
Íbúar eru hvattir til að mæta.