Hvorki tilefni til að herða né slaka á aðgerðum
Viðbragðsteymi Stykkishólmsbæjar fundaði með aðgerðarstjórn almannavarna á Vesturlandi í dag í ljósi vaxandi smita COVID-19 síðustu daga. Síðasta sólarhring hafa greinst tvö ný smit tengd Stykkishólmi, annar einstaklingurinn var í sóttkví í Stykkishólmi en hinn er með lögskráningu í Stykkishólmi en dvelur í Reykjavík. Í Stykkishólmi eru nú 11 skráðir með staðfest smit og í einangrun, þar af eru tveir sem taka út einangrun í Reykjavík. Í dag fóru 11 einstaklingar í sýnatöku og er niðurstöðu þeirra sýna að vænta á morgun. VARÚÐARRÁÐSTAFANIR ENN Í GILDI - PERSÓNUBUNDNAR SMITVARNIR STERKASTA VÖRNIN Niðurstaða fundarins var sú að hvorki þótti tilefni til að herða né slaka á aðgerðum. Þær varúðarráðstafanir sem gripið var til fyrr í vikunni þóttu hafa skilað góðum árangri og full ástæða til að halda áfram á þeirri braut næstu daga. Áður auglýstar varúðarráðstafanir eru því enn í gildi, þ.m.t. hólfaskipting í skólastofnunum og heimsóknarbann á dvalarheimili aldraðra. Staðan verður endurmetin á mánudaginn. Einnig er heimsóknarbann á legudeild Heilbrigðisstofnunar Vesturland (HVE) í Stykkishólmi. Þá er HVE í Stykkishólmi með í skoðun hjá sér að opna sérstaka upplýsingasíðu á samfélagsmiðlum til koma upplýsingum á framfæri við íbúa. Íbúar eru áfram hvattir til að huga vel að persónubundnum smitvörnum, hafa hægt um sig og fylgjast grannt með þróun mála. RÁÐSTAFANIR VEGNA COVID-19 Eftirfarandi varúðarráðstafanir eru í gildi í Stykkishólmi: Íbúum er bent á að fylgjast vel með tilkynningum frá skólum og öðrum stofnunum Stykkishólmsbæjar um helgina. Nánari upplýsingar má annars finna á covid.is.