HVE gerir ráðstafanir vegna kórónaveirunnar
Starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar á Vesturlandi hafa fengið fræðslu um kórónaveiruna og leiðbeiningar verið settar upp fyrir almenning innan stofnanna. Sjúkrahúsið á Akranesi og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi hafa fundið úrræði varðandi skoðunaraðstöðu og fyrir einangrun ef svo bæri að. Enn hefur enginn greinst með veiruna hérlendis en embætti landlæknis og sóttvarnarlæknir hafa lýst yfir óvissustigi í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vegna hinnar nýju kórónaveiru.
Landspítali og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) vilja að gefnu tilefni minna á leiðbeiningar fyrir almenning til að forðast smit og fækka smitleiðum í þeim tilgangi að draga úr líkum á alvarlegum veikindum. Kórónaveiran Novel (2019-nCoV) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar. Handhreinsun og hreinlæti kringum augu, nef og munn ásamt öruggri meðhöndlun fæðu eru lykilatriði í þessum efnum.
Handþvottur og spritt er mikilvægast til að forðast smit. Einnig skal varast úðasmit.
Viðbrögð ef grunur er um að einstaklingur sé smitaður:
Hafa samband í síma 1700 til að fá ráðleggingar um til hvaða ráða skuli gripið.
Almennt er ekki ráðlagt að flytja einstaklinginn strax á heilbrigðisstofnun nema um alvarleg veikindi sé að ræða.
Ef einstaklingur er grunaður um smit skal setja á hann sóttvarnagrímu til að hindra frekara smit.
Ef einstaklingur er grunaður um smit skal einnig huga að sóttkví þeirra sem eru í nánast umhverfi og hafa skal samráð við fagaðila í síma 1700.
Hver og einn þarf að huga að smitleiðum og koma í veg fyrir að smit berist.
Almennar ráðleggingar um hreinlæti gilda og eru afar mikilvægar til að draga úr dreifingu veirunnar:
Endurtekinn handþvottur og notkun handspritts reglulega.
Ef einstaklingur hóstar ber að halda fyrir munn/nef og þvo sér á eftir.
Ef mögulegt er, forðast að vera í < 2 metra fjarlægð frá hugsanlega sýktum einstaklingi.
Notkun hanska getur hjálpað til. Ástandið er vaktað á hverjum degi.