Fara í efni

Hrekkjavaka í Hólminum

01.11.2022
Fréttir
Foreldrafélag Grunnskólans Stykkishólmi í stendur fyrir hrekkjavökugöngu og opnun á Húsi hinna framliðnu (Haunted house) fyrir þá sem þora miðvikudaginn 2. nóvember. Verkefnið vinnur foreldrafélagið í samstarfi við ungmenni í félagsmiðstöðinni og Norska húsið. 
 
Hrekkjavaka nefnist á enskri tungu Halloween sem er stytting á All Hallows’ Evening sem er kvöldið 31. október, vakan fyrir Allraheilagramessu. Allraheilagramessa er er tileinkuð píslarvottum kirkjunnar og er haldin 1. nóvember víðsvegar um heim.
 
Ákveðið var að fresta Hrekkjavökunni í Stykkishólmi þar sem grunnskólinn er í vetrarfríi og mörg börn ekki heima 31. október. Þess í stað verður blásið til leiks miðvikudaginn 2. nóvember. Fjölskyldur og vinir eru hvattir til að ganga í hús á eigin forsendum milli kl. 18 og 20 þar sem börn safna sér sælgæti, eins og þekkt er. Gengið verður út frá þeirri reglu að banka megi uppá þar sem hús hafa verið merkt eða skreytt við eða á hurðina með skýrum hætti í tilefni Hrekkjavökunnar.
 
Í tilefni af hrekkjavöku verður opnun á Húsi hinna framliðnu í Norska húsinu milli kl. 18 og 20 þar sem elstu bekkir grunnskólans verða með hrylling fyrir þá sem þora, gefa nammi og bjóða upp á andlitsmálningu.
 
Hólmarar eru hvattir til að skreyta húsin sín og taka þátt í gleðinni.
 
Hús hinna framliðnu verður opið 2. nóvember kl. 18-20
Getum við bætt efni síðunnar?