Fara í efni

Hopp hjól í Stykkishólmi

18.04.2023
Fréttir

Í dag, sumardaginn fyrsta, skrifaði Jakob Björgvin bæjarstjóri undir samstarfsyfirlýsingu um stöðvalausa rafskútuleigu í Stykkishólmi. Rafskútuleigan Hopp opnaði í framhaldinu þjónustu sína í Stykkishólmi, en Hopp býður upp á skammtímaleigu á rafskútum/rafdrifnum hlaupahjólum. Markmið sveitarfélagsins með þessu er að auðvelda íbúum og gestum að komast ferða sinna með umhverfisvænum hætti.  Að lokinni undirskrift hoppaði bæjarstjórinn á hjól og tók stuttan rúnt í tilefni dagsins.

Hopp hefur boðið upp á leigu á rafskútum síðan 2019 og mun nú bjóða íbúum og gestum Sveitarfélagsins Stykkishólms upp á þennan umhverifsvæna samgöngumáta. Til að byrja með verða 20 rafskútur á svæðinu. Sveitarfélagið hefur tekið að sér eftirlit með hleðsluaðstöðu og vissa afmarkaða þjónustu við hjólin, þ.e. hlaða og skipta um batterí. Í staðinn fær sveitarfélagið eitt hjól til afnota fyrir Ráðhúsið og annað fyrir Þjónustumiðstöðina. Er um að ræða hluta af tilraunaverkefni á vegum Hopp og Stykkishólms sem fylgst er með bæði hérlendis sem og erlendis til að kanna hvernig rekstur hjólanna í sérstöku samstarfi gengur í minni sveitarfélögum, en fyrirtækið hyggst nú færa út kvíarnar og bjóða þjónustu sína í minni sveitarfélögum með sambærilegum hætti um alla Evrópu ef vel reynist. Til viðbótar við það fá allir starfsmenn sveitarfélagsins gjaldfrjáls afnot af hjólunum á milli kl. 08:00 – 16:00 virka daga. 

Fyrirkomulag rafskútuleigunnar fyrir notendur í Stykkishólmi verður sambærilegt og þekkist annars staðar. Fólk notar smáforrit (app) til að finna næsta lausa hjól, aflæsir því og leggur af stað. Fyrir þjónustuna greiðir notandi upphafsgjald og mínútugjald samkvæmt verðskrá fyrirtækisins. 10 mínútna ferð á Hopp hjóli kostar notanda 430 kr. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútunni hvar sem er innan þjónustusvæðisins. Hámarkshraði hjólanna er 25km/klst og komast þær hátt í 40km á einni hleðslu. 

Hægt er að kynna sér málið nánar á hopp.is

Getum við bætt efni síðunnar?