Fara í efni

Hólmarar sigra söngkeppni Samvest annað árið í röð

17.03.2023
Fréttir

Fimmtudaginn 16. mars sl. fór fram söngkeppni SamVest 2023 í Dalbúð, Búðardal. Tvö atriði kepptu fyrir hönd Félagsmiðstöðvarinnar X-ið. Melkorka Líf Jónsdóttir söng lagið All of me eftir John Legend og hljómsveitin Hallgerður og rest en þau fluttu Bond lagið Skyfall eftir Adele.

Öll stóðu þau sig frábærlega en hljómsveitin Hallgerður gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina og er það annað árið í röð sem Hólmarar sigra keppnina. Sveitarfélagið óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Viðburðurinn hófst að venju með söngkeppni þar sem keppendur af öllu Vesturlandi stigu á svið og kepptu fyrir hönd sinna félagsmiðstöðva, samtals 10 atriði. Ungmenni sem taka þátt í Samvest koma frá Akranesi, Borganesi, Búðardal, Eyja- og Miklaholtshrepp, Hvalfjarðarsveit, Hólmavík, Grundarfirði, Reykhólum, Skorradalshrepp, Snæfellsbæ og Stykkishólmi.

Viðburðurinn Samvest er undankeppni fyrir Söngkeppni Samfés sem er keppni allra félagsmiðstöðva á Íslandi. Sá viðburður er með stærri viðburðum landsins þar sem um 4500-5000 ungmenni mæta til að fylgjast með keppninni sem er svo lokað með balli. Hljómsveitin Hallgerður og rest mun taka þátt í söngkeppni Samfés, fyrir hönd félagsmiðstöðva á Vesturland, en keppnin fer fram helgina 5.-6. maí í Laugardalshöll.

Félagsmiðstöðin X-ið færir Tónlistarskólanum og starfsfólk sérstakar þakkir fyrir frábært samstarf og utanumhald fyrir keppendur. Ljóst er að góður Tónlistarskóli skipir sköpum máli fyrir gott félagsmiðstöðvastarf.

Hljómsveitina Hallgerður og rest skipa:

Ágústa Arnþórsdóttir, 9. bekk - Bassi
Embla Rós Elvarsdóttir, 9. bekk - Söngur
Hera Guðrún Ragnarsdóttir, 10. bekk - Þverflauta
Hjalti Jóhann Helgason, 9. bekk - Básúna
Íris Ísafold Sigurbjartsdóttir, 9. bekk - Hljómborð
Ívar Leo Hauksson, 10. bekk - Trommur

Hallgerður og rest
Getum við bætt efni síðunnar?