Fara í efni

Högni Bæringsson kjörinn heiðursborgari Stykkishólms

09.11.2024
Fréttir

Bæjarstjórn Stykkishólms samþykkti einróma á fundi sínum þann 31. október síðastliðinn kjör á Högna Friðriki Bær­ingssyni sem heiðursborgara Stykkishólms.

Tilkynnt var um kjörið á glæsilegum tónleikum í Stykkishólmskirkju sem haldnir voru í tilefni af 80 ára afmæli kórs kirkjunnar í dag, 9. nóvember. Fjöldi fólks sótti viðburðinn og fylgdist með þegar tilkynnt var um kjörið.

Jakob Björgvin S. Jakobsson, bæjarstjóri ávarpaði salinn og fór stuttlega yfir ævi Högna og þann sterka svip sem hann hefur sett á samfélagið hér í Hólminum.

Högni Bæringsson

Högni er fæddur 22. september árið 1935. Hann er sonur hjónanna Bærings Elíssonar, fæddur 9. maí 1899, látinn 30. maí 1991, og Árþóru Friðriksdóttur, fædd 23. desember 1904, látin 17. mars 1990.

Systkini Högna eru Jón Lárus Bæringsson, fæddur 25. febrúar 1927, látinn 17. júní 2010, Oddrún María Bæringsdóttir, fædd 2. ágúst 1930, látin 31. mars 2020, Gróa Herdís Bæringsdóttir, fædd 27. júlí 1933, látin 13. júní 1999 og Þorbergur Bæringsson sem fæddist 26. nóvember 1943. Fóstursystkini Högna eru Guðný Jensdóttir, fædd 15. maí 1938, Svavar Jensson, fæddur 7. júní 1953 og Þórður Haraldsson, fæddur 19. júlí 1951, látinn 2011.

Högni ólst upp í Bjarnarhöfn í stórri fjölskyldu og á gestkvæmu heimili. Foreldrar Högna keyptu Bjarnarhöfn árið 1932. Hann ólst upp hjá stórhuga foreldrum sem byggðu upp Bjarnarhöfn af miklum myndarskap. Á bænum var mikil vinna sem allir urðu að sinna. Bæring, faðir Högna, keypti fyrsta bílinn í sveitinni og vegur var lagður með handafli til Bjarnarhafnar. Eftir 19 ár í sveitinni var jörðin seld, árið 1951, og fjölskyldan flutti til Stykkishólms. Borg varð þá að miðstöð fjölskyldunnar.

Högni kvæntist Sigurbjörgu Hönsu árið 1957. Hansa fæddist 23. janúar 1936, en hún lést 2. september 2011. Börn Högna og Hönsu eru: Ragnheiður, fædd 24. nóvember 1956, Helga Kristín fædd 27. febrúar 1961 og Högni Friðrik, fæddur 28. janúar 1970.

Kraftmikill bæjarverkstjóri

Lengst af sinnti Högni starfi bæjarverkstjóra fyrir Stykkishólmsbæ. Högni tók við starfinu í apríl árið 1974 og sinnti því af elju í 30 ár en hann lét af störfum áramótin 2003/2004.

Á þeim tíma sem Högni sinnti starfi bæjarverkstjóra urðu gríðarlegar breytingar á bænum og reyndi mikið á áhaldahús sveitarfélagsins og vinnudagurinn oft langur. Ný íbúðarsvæði urðu til á þessum uppgangstíma með tilheyrandi gatnagerð og lagnavinnu. Verkferlar voru aðrir en nú þekkist, mikið þurfti að sprengja og allt borað á höndum. Þá var gatnakerfi bæjarins lagt bundnu slitlagi og holræsa- og vatnslagnir endurnýjaðar um allan bæ, að ógleymdri hitaveitunni á tíunda áratugnum. Þá kom áhaldahúsið, með Högna í fararbroddi, að þeim fjölmörgu stórframkvæmdum í bænum á þessum tíma, eins og t.d. skóla- og íþróttamannvirkjum, félagsheimili, dvalarheimili, heilsugæslu og hafnarframkvæmdum.

Þrátt fyrir allar þessar annir kom það aldrei niður á skjótum viðbrögðum verkstjórans að sinna þeim fjölmörgu beiðnum sem daglega koma frá íbúum bæjarins. Sú þjónustulund og hjálpsemi er honum einfaldlega eðlislæg.

Í grein Morgunblaðsins sem birt var í byrjun árs 2004 eftir að Högni lét af störfum var hann spurður hvaða verk væri honum minnisstæðast á ferlinum. Nefndi Högni þá garðinn út í Súgandisey sem einnig hafi verið skemmtilegasta vekrið. Þá sagði hann að svo mikið hafi verið að gera að vart hefði gefist tími til að sofa.

Þá minntist hann einnig gífurlegs álags í byrjun febrúar árið 1995 þegar mesti snjór á hans starfsferli féll til jarðar. Þá var unnið allan sólarhringinn. Þetta þekkja Hólmarar vel í fari Högna, hann gerir það sem þarf að gera og gott betur. Það var ekki spurt um vinnutíma, Högni var alltaf til reiðu ef þörf var á. Þegar aðrir íbúar í Stykkishólmi fóru á fætur og héldu til vinnu var Högni iðulega búinn að taka rúnt, tína rusl í vegköntum og tryggja að allt væri eins og það ætti að vera, langt umfram það sem ætlast var til af honum í starfi. Starfið var ekki bara starf sem unnið var frá átta til fimm heldur hlutverk sem sinnt var af ábyrgð og virðingu við umhverfi og samfélagið enda bar Högni ávallt ríka ábyrgðartilfinningu gangvart samfélaginu.

Áberandi í hestamennsku og slökkvistarfi

Högni var einnig slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi í um 10 ára skeið og hlaut viðurkenningu fyrir sín störf í þágu slökkviliðsins fyrr á þessu ári þegar haldið var upp á 110 ára afmæli slökkviliðs í Stykkishólmi.

Högni var áberandi í hestamennsku og starfi Hestamannafélagsins Snæfellings. Hann fór í fylkingarbrjósti þeirra sem báru uppi starfið á Kaldármelum og byggðu upp aðstöðu þar til hestaíþrótta þar sem ófá hestamannamótin voru haldin. Hlaut Högni árið 2009 viðurkenningu frá öllum hestamannafélögum á Vesturlandi fyrir ómetanleg störf við fjórðungsmót og gullmerki Snæfellings árið 2013 fyrir sín störf fyrir félagið.

Högni er verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem með eljusemi vann að uppbyggingu í Stykkishólmi á 20. öldinni og eru spor hans víða. Hann hefur alltaf verið maður framkvæmda, gæddur bjartsýni og jákvæðni fyrir uppbyggingu í samfélaginu. Þannig eru störf hans og framganga til fyrirmyndar og til eftirbreytni.

Í seinni tíð hefur aðstoð Högna við eldra fólk verið áberandi, hann hefur m.a. sinnt akstursþjónustu fyrir þá sem þurfa og tekið að sér ýmis konar önnur verkefni á Höfðaborg í sjálfboðavinnu. Fyrir það, sem og allt hans framlag til samfélagsins, ber að þakka.

Hluti af sögu Stykkishólms

Þessi viðurkenning, kæri Högni, er þakklætisvottur frá okkur öllum. Hún er heiðursmerki fyrir framúrskarandi starf, en umfram allt fyrir þann heiðarlega og trausta mann sem þú hefur að geyma. Fyrir hönd bæjarbúa vil ég þakka þér fyrir allar þær óteljandi stundir sem þú unnið fyrir bæinn og bæjarbúa. Þú verður ávallt stór hluti af sögu Stykkishólms og sögu okkar Hólmara. - Sagði Jakob Björgvin, bæjarstjóri, að lokum áður en Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar afhenti Högna blómvönd, heiðursmerki og viðurkenningarskjal í þakkarskyni fyrir hönd bæjarbúa.

Högni Bæringsson, heiðursborgari, ásamt bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar.
Getum við bætt efni síðunnar?