Fara í efni

Helstu fréttir gefnar út mánaðarlega

03.04.2023
Fréttir

Á vefsíðu sveitarfélagsins Stykkishólms má lesa helstu fréttir sem snúa að rekstri sveitarfélagsins, viðburðum og öðru tengdu sveitarfélaginu. Fréttunum er svo deilt á facebooksíðu Stykkishólms til að ná athygli sem flestra. Nú hefur verið sett á fót tilraunaverkefni til að ná til þeirra sem nota ekki tölvur. Fram hefur komið ákall um að bæta þurfi upplýsingaflæði til þessa hóps. Margir upplifi sig ómeðvitaða um hvað er í gangi í samfélaginu og því full þörf á að bregðast við.

Sem svar við þessu ákalli var því ákveðið, í samráði við Aftanskin, félag eldri borgara, að setja af stað tilraunaverkefni sem unnið er í Ráðhúsinu. Mánaðarlega verður gefið út lítið prentrit sem hefur að geyma allar helstu fréttir af vefsíðu sveitarfélagsins. Ritið hefur fengið það lýsandi nafn, Helstu fréttir.  Markhópurinn er fólk sem ekki les fréttir af heimasíðu sveitarfélagsins og er sá hópur að stórum hluta eldri borgarar. Blaðið liggur því frammi á Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi auk þess sem Aftanskin dreifir því til sinna félaga.

Rafræn útgáfa blaðsins verður öllum aðgengileg á vefsíðu sveitarfélagsins. Auk þess gefst þeim sem kjósa kostur á því að fá blaðið sent heim en sú þjónusta afmarkast þó við íbúa í sveitarfélaginu. Hægt er að panta áskrift af blaðinu hér að neðan eða með því að setja sig í samband við Magnús Bæringsson, s. 864-8862.

Fyrsta tölublað kom út í dag, 3. apríl. Blaðið liggur frammi á Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi auk þess sem Aftanskin, félag eldri borgara, hefur fengið sín eintök. Þeir sem panta áskrift fá næsta tölublað sent heim. Hægt er að nálgast blaðið sem kom út í dag í Ráðhúsi Stykkishólms.

Smelltu á hnappinn hér að neðan til að lesa rafræna útgáfu blaðsins.

Helstu fréttir

Smelltu á hnappinn hér að neðan til að panta áskrift af blaðinu.

Panta áskrift

Getum við bætt efni síðunnar?