Fara í efni

Heimsókn forseta Íslands í Stykkishólm

19.08.2024
Fréttir Lífið í bænum

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, heimsótti Stykkishólm af tilefni 30 ára afmælis Danskra daga síðastliðinn laugardag. Halla tók þátt í hátíðarhöldum á laugardeginum ásamt eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni.

Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar tóku á móti þeim hjónum og kíktu með þeim í kvenfélagskaffi í Freyjulundi. Þar þágðu forsetahjónin kaffi og léttar veitingar frá kvenfélaginu og spjölluðu við viðstadda.

Að kaffinu loknu lá leið forseta í Norska húsið. Þar sagði Anna Melsted, sýningarstjóri, stuttlega frá nýrri grunnsýningu á miðhæð hússins „Hjartastaður - Sjóndeildarhringurinn með augum ungs fólks á Snæfellsnesi frá 1900“. Þar að auki skoðaði forseti sýninguna Leirlist og Textíll eftir Elísabetu Haraldsdóttur og Þorbjörgu Þórðardóttur.

Þá var gengið frá Norska húsinu yfir í Tang og Riis. Á leiðinni sagði Kristín Þorleifsdóttir, skipulagsfulltrúi, frá gömlu húsunum í miðbænum og skipulagi bæjarins. Ingibjörg Ágústsdóttir, listakona, tók á móti forseta í Tang og Riis og lóðsaði um sýningu ellefu listamanna í gamla frystihúsinu.

Þaðan var svo gengið niður á bryggju þar sem fjöldi íbúa og gesta bæjarins voru viðstaddir hafnartónleika. Þegar hljómsveitin Glymur hafði lokið sér af flutti Jakob Björgvin, bæjarstjóri, ávarp þar sem hann fór stuttlega yfir upphaf og sögu Danskra daga. Meðal annars talaði bæjarstjóri um þær breytingar sem hátíðin hefur gengið í gegnum og hvatti íbúa til samtals um hvort tímasetningin hentar hátíðinni betur, júní eða ágúst. Þá skilaði bæjarstjóri einnig þökkum til þeirra sem báru þungann af skipulagningu hátíðarinnar, styrktu hana eða komu að undirbúning með einum eða öðrum hætti.

Undirbúningsnefnd Danskra daga skipuðu þau Hjördís Pálsdóttir, Kristjón Daðason, Ólöf Inga Stefánsdóttir, Björn Ásgeir Sumarliðason og Þorbjörn Geir Ólafsson.

Stykkishólmur með fallegustu bæjum á landinu

Að lokinni ræðu bæjarstjóra flutti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hátíðarkveðju. Í kveðju sinni hrósaði forseti Hólmurum fyrir snyrtilegan bæ og sagði Stykkishólm að hennar mati einn af fallegustu bæjum landsins. Þótti henni hátíðarhöld tilkomumikil og gaman að sjá dönsku áhrifunum haldið á lofti. Þá kvaðst hún viss um að Hólmarar myndu tala dönsku þegar liði á kvöldið. Að lokum þakkaði hún hlýjar móttökur í Stykkishólmi og sendi sérstakar kveðjur á kvenfélagskonur og aðra Hólmara sem tóku á móti henni, sýndu sín verk og sögðu frá.

Hér að neðan má sjá myndir frá heimsókninni.

Frá heimsókn forseta í Stykkishólm.
Getum við bætt efni síðunnar?