Fara í efni

Heimir ráðinn skólastjóri og Rannveig ráðin forstöðumaður miðstöðvar öldrunarþjónustu

11.05.2023
Fréttir

Á 14. fundi bæjarstjórnar Stykkishólms, þann 11. maí, samþykkti bæjarstjórn að ráða Heimi Eyvindarson í stöðu skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi og Tónlistarskóla Stykkishólms. Ákvörðun bæjarstjórnar er byggð á niðurstöðu ráðgjafa Attentus og hæfninefndar sem taldi Heimi mæta best þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starfið.

Nánar um Heimi

Heimir lauk B.Ed frá KHÍ af kjörsviði erlendra tungumála (dönsku) árið 2010. Hann hefur lokið 70 ETSC einingum á meistarastigi á sviði stjórnun menntastofnana og mun ljúka diploma í opinberri stjórnsýslu á þessu ári. Hann hefur einnig stundað nám í þroskaþjálfun frá KHÍ og er Garðyrkjufræðingur/Blómaskreytir frá Garðyrkjuskóla Ríkisins. Heimir er hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Á móti sól og hefur verið aðal laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar frá stofnun árið 1995.

Heimir starfar nú sem deildarstjóri elsta stigs við Grunnskólann í Hveragerði, hann starfaði fyrst sem deildarstjóri sérkennslu og síðar sem deildarstjóri náms og kennslu. Áður var hann leiðbeinandi í grunnskóla á árunum 2005-2010 og grunnskólakennari frá árunum 2010-2013.

Heimir tekur til starfa 1. ágúst næstkomandi en stefnir þó að því að koma í Hólminn á næstu vikum, kynnast starfsfólki skólanna og undirbúa starfið fyrir næsta haust.

Forstöðumaður miðstöðvar öldrunarþjónustu

Á fundi bæjarstjórnar var einnig samþykkt að ráða Rannveigu Ernudóttir í nýja stöðu forstöðumanns miðstöðvar öldrunarþjónustu. Ákvörðun bæjarstjórnar er byggð á niðurstöðu ráðgjafa Attentus og hæfninefndar sem taldi Rannveigu mæta best þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starfið.

Nánar um Rannveigu

Rannveig lauk BA gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og BA gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði árið 2012 frá sama háskóla. Rannveig hefur lokið FME hæfismati og lokið grunnnámskeiði hjá Geðverndarfélagi Íslands.

Hún starfaði sem frístundaráðgjafi hjá Reykjavíkurborg á árunum 2014-2018 og sem tómstunda- og félagsmálafræðingur á Hrafnistu á árunum 2014-2015. Rannveig hefur einnig starfað sem virkniþjálfi hjá Reykjavíkurborg og haft umsjón með félagsstarfi fullorðinna á árunum 2016-2022.

Rannveig er stofnandi og var verkefnastjóri Tæknilæsis fyrir fullorðinna og sat í stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar á árunum 2018-2022. Rannveig er einnig núverandi forstöðukona félagsmiðstöðvarinnar Hraunbæ 105.

Rannveig hefur störf í byrjun ágústmánaðar en stefnir að því að heimsækja Stykkishólm í næstu viku og kynna sér aðstæður og undirbúa starfið.

Hlutverk forstöðumanns

Hlutverk Rannveigar sem forstöðumanns verður að stýra nýrri miðstöð öldrunarþjónustu sem mun vera staðsett við Skólastíg 14 í Stykkishólmi. Hún mun leiða stofnun nýs sviðs öldrunar og stoðþjónustu í sveitarfélaginu og innleiðingu á stefnumörkun starfshóps um þjónustu við einstaklinga 60 ára og eldri. Með stofnun miðstöðvarinnar er fyrsta skrefið tekið við að vinna markvisst að því að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu.

Sveitarfélagið Stykkishólmur óskar þeim Heimi og Rannveigu innilega til hamingju með nýju stöðurnar og óskar þeim jafnframt velfarnaðar í starfi. Þá þakkar sveitarfélagið einnig öllum þeim sem sóttu um stöðurnar og sýndu þeim áhuga.

Getum við bætt efni síðunnar?