Heilsuefling eldri borgara farin af stað
Heilsuefling eldri borgara hóf göngu sína í gær, þriðjudaginn 10. september, á nýjan leik eftir sumarfrí. Átakið fer vel af stað og þátttaka góð, enn er þó pláss fyrir fleiri og ekki of seint að láta til skarar skríða.
Eins og áður hefur komið fram verða hópatímar á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12:30-13:30. Ræktin verður opin með þjalfara kl. 10:20 á miðvikudögum og kl. 9:30 á föstudögum. Ásamt tímunum stendur þátttakendum til boða á mæta á fyrirlestra og fræðslu.
Áfram verður notast við árangursmælikvarða og ýmsar mælingar fyrir þá sem það kjósa. Árangursmælikvarðar eru gagnlegir til að meta árangur og þróun í getu einstaklinga og hvetjandi að sjá árangurinn. Fyrirkomulag æfinganna hefur reynst vel en fyrir þá sem ekki tóku þátt á síðasta starfsári þá munu þjálfarar fara yfir helstu þætti heilsueflingarinnar með þátttakendum.
Þátttökugjald er kr. 4.000.- fyrir einstaklinga á mánuði og kr. 7.000.- fyrir hjón. Ekki verður í boði að greiða fyrir staka tíma en í gjaldinu er allt framangreint innifalið. Mikilvægt er að tilkynna ef þátttöku er hætt. Skráning fer fram á æfingum hjá þjálfurum, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Gísla Páls en einnig hægt að hafa samband við Magnús Inga Bæringsson fyrir frekari upplýsingar eða skráningu.
Annað félagsstarf eldri borgara hefst mánudaginn 16. September kl 10:00 með kaffispjalli Aftanskins í Setrinu. Dagskrá fyrir félagsstarf eldri borgara í Stykkishólmi veturinn 2019-2020 má sjá her að neðan.