Fara í efni

Hans klaufi í Stykkishólmi

21.02.2020
Fréttir
Fjölskyldusöngleikurinn Hans klaufi frá leikhópnum Lottu verður sýndur í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi þriðjudaginn 25. febrúar kl. 17:30.

 

Leikhópurinn Lotta er Hólmurum vel kunnur enda komið hér áður með sýningar og hlotið góðar móttökur, en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast um land allt með sýningar sínar. Hópurinn setti Hans Klaufa fyrst upp árið 2010, en nú tíu árum síðar er rykinu dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi. Verkið hefur verið endurskrifað að stórum hluta og þó að sömu skemmtilegu persónurnar prýði það eins og fyrir tíu árum síðan, hefur nýjum ævintýrum og glænýjum lögum verið bætt við söguna. Um er að ræða nýja útgáfu af sögunni sem ekki er hægt að finna í gömlu ævintýrunum, þó vissulega beri hún þekkt nafn. Verkið er sannkölluð ævintýrablanda sem sækir mikið af efniviði sínum í sígildu ævintýrin okkar. Þannig munum við kynnast Öskubusku, stjúpsystrum hennar og prinsi sem breytt verður í frosk. Við munum stinga okkur á snældu, reyna að sofna með eina litla baun undir 100 ábreiðum og standa í háum turni og láta okkur vaxa hár sem nær alla leið niður á jörðina. Síðast en ekki síst munum við fylgjast með ævintýrum hins klaufalega Hans Klaufa.

Sýningin fer fram í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi nk. þriðjudag kl.17.30 og er u.þ.b. ein klukkustund að lengd.
Miðaverð er 3100 kr.

Hægt er að kaupa miða á tix.is eða við innganginn.

Getum við bætt efni síðunnar?