H-Lóð í Víkurhverfi laus til úthlutunar
Sveitarfélagið Stykkishólmur auglýsir nýja lóð til úthlutunar H-lóð skv. deiliskipulagi við Bauluvík í Víkurhverfi í Stykkishólmi í samræmi við reglur Stykkishólms um úthlutun á lóða fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði og bætist þar með á úthlutunarlista yfir lausar lóðir í Stykkishólmi. Á lóðinni er heimilt að byggja 3-5 íbúða fjölbýlishús, allt að 375 fm. Umsóknarfrestur er til og með 13. september 2024. Gatnagerð á svæðinu er á lokastigi.
Berist fleiri en ein umsókn um sömu lóð áður en umsóknarfrestur rennur út sem uppfylla skilyrði úthlutunarreglna sveitarfélagsins skal hlutkesti ráða úthlutun. Eftir þann tíma skal úthluta lóðinni til fyrsta umsækjanda sem eftir leitar að uppfylltum skilyrðum reglnanna.
Sækja má um lóðina/lóðirnar í íbúagátt Stykkishólms.
Nánar um lóðirnar í Víkurhverfi og skipulagsáætlanir
Í gildi er deiliskipulag frá 2007 með síðari breytingum. Deiliskipulagi fyrir 1. áfanga Víkurhverfis var breytt í október 2022 með það að markmiði að stuðla að betri landnýtingu með fjölgun lóða á miðsvæði hverfisins, auka fjölbreytileika íbúðarkosta, fegra heildaryfirbragð hverfisins, huga að auknu umferðaröryggi, breyta botnlangagötum í vistgötur og tryggja gott aðgengi að verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. Sjá hér skýringarhefti með umræddum skipulagsbreytingum. Skipulagi 1. áfanga hverfisins var aftur breytt í júlí 2024 vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar 12 íbúða fyrir Brák íbúðafélag hses. á 2800 m2 reit á svæðinu.
Lóðin verður afhentar með óröskuðu yfirborði að mestu. Búið verður að leggja lagnir að lóðarmörkum. Gengið verður frá götum samhliða uppbyggingu húsa en ekki liggur fyrir hvenær gengið verður frá yfirborði. Lóðum er úthlutað með fyrirvara um endanleg hnit- og hæðarsett lóðarblöð.
Skilmálar, forgangsröðun, greiðslur og úthlutunarreglur vegna lóða í Víkurhverfi:
Vísast til almennra skilmála í 3. gr. lóðareglna hvað varðar almennar úthlutunarreglur og forgangsröðun í 4. gr. lóðareglna.
Staðfestingargjald vegna lóðaúthlutunar er kr. 200.000 og greiðist samhliða umsókn. Telst umsókn ekki gild sé staðfestingargjald ekki greitt. Staðfestingargjald verður endurgreitt þeim sem ekki hljóta lóðarúthlutun. Þeir sem fá úthlutaðri lóð greiða kr. 29.000 úthlutunargjald og munu kr. 171.000 ráðstafast í til greiðslu gatnagerðagjalda.
Sérstök athygli er vakin á því að greiða skal 50% gatnagerðargjalda innan 30 daga frá tilkynningu um úthlutun lóðar, en eftirstöðvar gatnagerðargjalda, 50%, skal greiða ásamt öðrum tilskildum gjöldum áður en byggingaleyfi er gefið út. Byggingarleyfisgjald og önnur gjöld greiðast með venjubundnum hætti við samþykkt byggingaráforma. Auk gatnagerðargjalda skal lóðarhafi, við úthlutun lóðar, greiða kr. 830 af hverjum fermetra lóðar miðað við byggingarvísitölu 116,4 2021.
Þá er vakin athygli á nýjum skilmálum hvað varðar framkvæmdafrest, þ.m.t. að umsókn um byggingarleyfi skal hafa borist sveitarfélaginu innan 6 mánaða frá því að úthlutunardegi.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í Ráðhúsinu, Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi eða í síma 433-8100 eða á heimasíðu sveitarfélagsins, stykkisholmur.is.
Jafnframt er vakin athygli öðrum lausum lóðum sem áður voru auglýstar og skráðar eru á úthlutunarlista sveitarfélagsins sem finna má á vefsjá Stykkishólms.