Gyða Steinsdóttir ráðin í stöðu fjármála- og skrifstofustjóra
Gyða Steinsdóttir hefur verið ráðin í stöðu fjármála- og skrifstofustjóra hjá Sveitarfélaginu Stykkishólmi. Staðan var auglýst í kjölfar þess að Þór Örn Jónsson, sem starfað hefur sem bæjarritari í Stykkishólmi frá 1. janúar 2004, óskaði eftir að láta af störfum við 67 ára aldur sinn. Gyða hefur störf á næstu mánuðum.
Á 28. fundi bæjarstjórnar Stykkishólms, þann 26. september, samþykkti bæjarstjórn tillögu bæjarstjóra um að ráða Gyðu Steinsdóttir í stöðu fjármála- og skrifstofustjóra hjá Sveitarfélaginu Stykkishólmi. Við heildarmat á hæfni umsækjenda var mat bæjarstjóra samhljóða mati ráðgjafa að Gyða Steinsdóttir mæti best þeim hæfnikröfum sem settar voru fram í auglýsingu. Var bæjarráði kynnt niðurstaða bæjarstjóra og ráðgjafa á 25. fundi bæjarráðs.
Gyða var bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar frá árinu 2010 til 2014. Áður starfaði hún sem skrifstofustjóri hjá Sýslumanninum í Stykkishólmi og rak bókhaldsstofu í Stykkishólmi, ásamt því að sinna fjármálastjórn eigin fyrirtækis síðustu 20 árin. Gyða hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri hjá KPMG á Vesturlandi og rekið skrifstofu félagsins í Stykkishólmi. Gyða er með Macc. í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og BS í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.
Starf fjármála- og skrifstofustjóra var auglýst laust til umsóknar þann 16. ágúst sl. og var umsóknarfrestur til og með 2. september sl. Alls bárust 11 umsóknir um stöðuna.