Fara í efni

Grjóthrun úr sjálfri kerlingunni í Kerlingarskarði

12.01.2021
Fréttir

Myndband frá Kerlingarskarði sem Sumarliði Ásgeirsson deildi á facebook síðu sinni hefur vakið töluverða athygli. Myndbandið er tekið með dróna sem flýgur yfir kerlinguna í Kerlingarskarði og sýnir að töluvert hefur hrunið úr henni. Sjálfur giskar Sumarliði á að kerlingin hafi misst 5- 6 metra af hæð sinni.

Hægt er að sjá myndbandið hér að neðan:

 

Kerlingin er Hólmurum góðkunn enda Kerlingarskarð lengi verið vinsæl útivistarparadís. Fjölmargir hafa gengið upp og heimsótt kerlinguna í gegnum tíðina og margir oftar einu sinni og oftar en tvisvar, á tímabili var þar haldið úti gestabók sem einnig hafði að geyma sögur af kerlingunni. Eflaust minnka þó vinsældir kerlingar ekki þó hún minnki sjálf og má ætla að margir geri sér ferð upp að henni þegar hlýnar í veðri til að sjá breytingarnar með berum augum.

Kerlingin í Kerlingarskarði
Það eru margar sögur um tilurð kerlingarinnar í Kerlingarskarði og er þetta ein þeirra. Kerling lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hún hafði með sér hest og á honum klyfjar með skyrtunnu og heysátu, einnig hafði hún með sér hafur. Kerlingin var sein fyrir og þurfti að flýta sér nokkuð. Þegar hún var komin áleiðis vestur fjallgarðinn á móts við Ljósufjöll losnaði sátan af klyfjunum og varð eftir þar sem nú heitir Sátan. Kerlingin brá á það ráð að hanga sjálf í klyfjunum á móti tunnunni. Hesturinn þreyttist fljótt og gafst að lokum upp þar sem fjallið Hesturinn er nú. Kerlingin ætlaði þá að bera tunnuna sjálf en gafst upp og skildi hana eftir þar sem fjallið Skyrtunna er nú. Hafurinn gekk með Kerlingu en hún var á mikilli hraðferð þar sem brátt myndi dagur rísa og skildi hafurinn eftir í fjallinu sem nú er þekkt sem Hafursfell. Í þann mund sem hún kemur upp á brún fjallsins sem nú heitir Kerlingarfjall kom sólin upp og varð hún þá samstundis að steini og er þar enn þann dag í dag.

Getum við bætt efni síðunnar?