Grettir Sterki á leið í Stykkishólm
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar hefur ítrekað lagt þunga áherslu á að annað skip hefji siglingar yfir Breiðafjörð sem allra fyrst þar sem núverandi ferja standist ekki nútímakröfur. Að öðrum kosti hefur bæjarstjórn lagt til að dráttarbátur verði staðsettur í Stykkishólmshöfn til að tryggja betur öryggi sjófarenda á Breiðafirði.
Dráttarskip á leiðinni
Dráttarskipið Grettir Sterki er nú á leið til Stykkishólms og mun skipið vera hér til taks ef á þarf að halda. Í grein Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðarráðherra, sem birtist á vefnum Bæjarins bestu í september, segir Sigurður vonir standa til þess að Vegagerðin fái nýtt skip til landsins um áramótin í stað Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Á meðan beðið sé eftir nýju skipi verði tryggt að dráttarbátur verði til staðar á Breiðafirði.
Kjartan Karvelsson, hafnarvörður, gerir ráð fyrir að Grettir leggist við höfn í Stykkishólmi seinni partinn í dag, mánudaginn 3. okt.