Fara í efni

Grenitréð varð fyrir vali íbúa

28.11.2022
Fréttir

Líkt og undanfarin ár var íbúum gefin kostur á að velja sér jólatré í Hólmgarðinn í ár. Valið stóð á milli sitkagreni og stafafuru. Furan stendur í Sauraskógi en grenið í garði við heimahús hér í bæ.

Afgerandi meirihluti kaus sitkagrenið sem jólatréð í ár. Alls tóku 114 þátt í valinu, þar af völdu 92 grenið en 22 furuna. Sitkagreni er ein algengasta trjátegundin í ræktun hér á landi en fyrstu trén sett niður í Reykjavík um 1924.Tréð verður nú sagað niður, því komið fyrir í Hólmgarði og það skreytt venju samkvæmt.

Ljósin tendurð 2. desember

Ljósin á jólatrénu í Hólmgarði verða tendruð föstudaginn 2. desember kl. 18:00. Síðustu ár hafa ljósin verið tendruð við lágstemmda athöfn vegna sóttvarnaraðgerða. Það er því sérlega ánægjulegt að taka upp hina rótgrónu hefð að tendra ljósin á trénu kl. 18:00 þannig að allir íbúar geti notið samverunnar og átt saman jólastund. Kvennfélagið selur heitt súkkulaði og smákökur, nemendur 1. bekkjar tendra ljósin og hver veit nema nokkrir rauðklæddir bræður láti sjá sig.

Upphaflega stóð til að tendra ljósin 1. desember en vegna veðurs hefur verið ákveðið að tendra ljósin frekar á föstudeginum, 2. desember, í betra veðri.

Meirihluti íbúa vill grenitré í Hólmgarðinn.
Getum við bætt efni síðunnar?