Fara í efni

Gott endurvinnsluhlutfall frá heimilum í Stykkishólmi

18.03.2025
Fréttir

Sveitarfélög skilgreina markmið um úrgangsminnkun og aukna endurvinnslu í samræmi við lög og stefnu ráðherra. Samkvæmt stefnu ráðherra átti endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs að ná 50% árið 2022 og hækka í áföngum í 55% árið 2025, 60% árið 2030 og 65% árið 2035. Urðun heimilisúrgangs skal minnka í að hámarki 10% árið 2035. Heimilisúrgangur felur í sér matarleifar, umbúðir, pappír, plast, gler og málma, ásamt sambærilegum úrgangi frá smærri starfsemi. Sveitarfélög skulu einnig stefna að því að draga úr úrgangsmyndun, sérstaklega úrgangi sem fer til förgunar eða orkuvinnslu.

Sérsöfnun úrgangs hefur verið í Stykkishólmi síðan árið 2008, þegar sérsöfnun heimilisúrgangs hófst á Íslandi. Flokkun hefur gengið vel í sveitarfélaginu eins og myndirnar hér að neðan sýna. Endurvinnsluhlutfall heildarúrgangs í sveitarfélaginu hefur almennt verið rétt undir 50% og úrgangur til endurvinnslu frá heimilunum yfirleitt verið á bilinu 50-60%. Í umræðu um endurvinnslu, sérsöfnun og flokkun gleymist oft að ræða sorpmyndunina sjálfa – það magn sem til fellur. En áhrifamesta leiðin til að minnka bæði umhverfisáhrif og kostnað vegna sorps er að draga úr innkaupum og þar með sorpmyndun.

Næstu árin mun Sveitarfélagið Stykkishólmur vinna að því að uppfylla markmið sjálfbærnistefnu Snæfellsness með áherslu á úrgangsmál. Sveitarfélagið mun fylgja lögum um aukið endurvinnsluhlutfall og stefna að því að draga úr úrgangsmyndun. Markmiðin fela í sér að auka endurvinnslu heimilisúrgangs í samræmi við stefnu ráðherra, með áföngum sem ná hámarks endurnýtingu árið 2035.

Sjálfbærnistefna Snæfellsness sem uppfyllir bæði lög um loftslagsmál og staðal EarthCheck vegna umhverfisvottunar verður tilbúin á þessu ári, en ásamt henni mun hvert sveitarfélag vera með sína eigin aðgerðaáætlun vegna markmiða í hringrásarhagkerfinu, orkusparnaði- og stjórnun, verndun vistkerfa og landnotkun og samgöngum.

Meðalþyngd úrgangs frá sorphirðu heimilanna í kílóum. Lítil breyting er á magni úrgangs frá heimilum í Stykkishólmi, en meðalmagn frá íbúum er minna en meðalmagn á Snæfellsnesi öllu. Af úrgangi frá heimilum árið 2023 fóru 47% í urðun, plast til endurvinnslu var 6%, pappír og pappi 15% og lífrænn úrgangur til jarðgerðar var 32%. Magntölur eru frá Íslenska gámafélaginu, tölfræði unnin af verkefnastjóra umhverfisvottunar Snæfellsness.

Heildarmagn og hlutfall úrgangsflokka frá Sveitarfélaginu Stykkishólmi árið 2024. Magntölur eru frá Íslenska gámafélaginu, tölfræði unnin af verkefnastjóra umhverfisvottunar Snæfellsness.

Flokkun úrgangs árin 2019 – 2024 eftir aðilum: Fyrirtæki, gámastöð, stofnanir sveitarfélagsins og heimili. Magntölur eru frá Íslenska gámafélaginu, tölfræði unnin af verkefnastjóra umhverfisvottunar Snæfellsness.

Heildarúrgangur eftir aðilum, þróun á milli ára, 2016-2024. Ýmislegt getur haft áhrif á sveiflur á milli ára; framkvæmdir, ferðaþjónusta, upp- eða niðursveifla í iðnaði og efnahagsástand í samfélaginu. Magntölur eru frá Íslenska gámafélaginu, tölfræði unnin af verkefnastjóra umhverfisvottunar Snæfellsness.

Einar Marteinn við sorphirðubíl Gámafélagsins
Getum við bætt efni síðunnar?