Fara í efni

Göngum í skólann

24.08.2020
Fréttir

Skólasetning Grunnskólans í Stykkishólmi fór fram sl. föstudag og hefðbundin kennsla hófst í morgun. Nú í upphafi nýs skólaárs stendur ÍSÍ fyrir átakinu göngum í skólann. Árlega taka milljónir barna frá yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í átakinu með einum eða öðrum hætti. Göngum í skólann 2020 hefst 2. september en hægt verður að skrá sig til leiks meðan á verkefninu stendur eða fram að alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 7. október næstkomandi.

Markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta eða hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Þeir foreldrar sem tök hafa á eru hvattir til að ganga í skólann fyrstu dagana og fara yfir helstu umferðarreglur með börnum sínum á leiðinni, minna börnin á að líta til beggja hliða og nota gangbrautir og gangstéttar. Einnig er minnt á notkun hjálma þegar það á við og endurskinsmerkja þegar fer að rökkva.

Ennfremur eru ökumenn minntir á að sýna tillitsemi og varkárni í umferðinni.

Hægt er að skrá sig til leiks og kynna sér átakið nánar hér.

Getum við bætt efni síðunnar?