Fara í efni

Gönguleið mótuð við Hjallatanga og Búðarnes

06.11.2024
Fréttir

Árið 2021 var tilkynnt um úthlutaða styrki úr Landsáætlun um uppbyggingu innvið. Þar var tilkynnt að styrkur hafi verið veittur til heildarhönnunar svæðisins við Búðarnes og Hjallatanga með það að markmiði að útbúin verði söguleið um svæðið þar sem saga Stykkishólms hófst. Verkefnið er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Minjastofnunar Íslands, enda er svæðið ríkt af menningarminjum auk þess sem þar er mikil náttúrufegurð. Í Búðarnesi hófst verslunarsaga Stykkishólms og eru þar minjar tengdar verslun á svæðinu, þar á meðal friðlýstar búðatóftir.

Landslag mótað milli Hjallatanga og Búðarness

Í tengslum við framangreint verkefni hafa framkvæmdir staðið yfir á svæðinu í liðnum mánuði, en þar hefur landslag verið mótað í samræmi við framtíðarskipulag um gönguleiðir á svæðinu. Áður hafði verið grafið á svæðinu í kjölfar þess að lóðinni Nesvegur 22a var úthlutað en þar stóð til að reisa atvinnuhúsnæði og þá að móta gönguleiðir og útivistasvæði til samræmis við þau áform. Þau áform eru nú breytt og lóðin aftur komin í umsjá sveitarfélagsins, en frágangur eftir jarðrask á svæðinu var látin bíða vegna skipulagsvinnu við göngustígagerð á svæðinu. Nú er hins vegar búið að móta landslagið í samræmi við þá vinnu svo hentugt sé að ganga á milli Hjallatanga og Búðarness, en sáð verður í framkvæmdarsvæðið næsta vor. Stefnt er að því að framtíðarsýn fyrir svæðið liggi svo endanlega fyrir á þegar lokið verður við heildarhönnun svæðisins á næsta ári.

Liður í að auka aðgengi að gönguleiðum

Þetta verkefni fellur vel að stefnu sveitarfélagsins um að vinna markvisst að því að bæta aðgengi íbúa og gesta að útivist og náttúruupplifun í sveitarfélaginu. Er það gert m.a. með því að auka aðgengi að göngustígum, merkja gönguleiðir og koma upp leiðavísum og upplýsinga- og söguskiltum þar sem við á. Um Hjallatanga og Búðarnes liggja fallegar gönguleiðir þar sem útsýni yfir Breiðafjörð er stórbrotið og Bjarnarhafnarfjallið fær sín gjarnan notið í hlýju litrófi sólsetursins.

Búið er að móta landslag í samræmi við framtíðarskipulag um gönguleiðir á svæðinu.
Getum við bætt efni síðunnar?