Gleðilegt nýtt ár - Nýárspistill bæjarstjóra
Pistillinn birtist fyrst í Jökli, héraðsblaði 9. janúar 2020
Það er ánægjulegt að skrifa þennan pistil í Jökul, héraðsblað Snæfellinga. Stykkishólmspósturinn, sem hafði verið gefinn út í Stykkishólmi um árabil, hætti útgáfu fyrir ári síðan, en síðan þá hefur að mínu mati vantað fréttablað af þessu tagi í Stykkishólmi. Jökull, sem er nú dreift í öll hús í Stykkishólmi, til viðbótar við það sem áður var, er fagnaðarefni og það felur í sér fjölmörg tækifæri að íbúar um allt Snæfellsnes fái nú sama blaðið inn um lúguna og það verður vonandi til að auka samstarf og samheldni enn frekar á svæðinu.
Árið 2019 var viðburðaríkt í Hólminum. Hér verður stiklað á stóru og farið yfir það helsta.
Hólmurinn heillar enn kvikmyndagerðarfólk
Stykkishólmur heldur áfram að heilla kvikmyndagerðafólk en tökum á sjónvarpsþáttunum 20/20 lauk snemma á árinu og gekk samstarf Saga film og Hólmara vel. Þó íbúar séu þessum heimsóknum vanir, þá lífga þær engu að síður upp á bæjarlífið meðan á tökum stendur. Undir lok árs komu nemendur frá Kvikmyndaskóla Íslands og tóku upp stuttmynd í bænum. Reglulega sjáum við svo ferðamenn endurgera þyrluatriðið úr Secret life of Walter Mitty á höfninni og oft á tíðum virðast ferðamenn tjalda til engu minna hvað varðar tækjabúnað og búninga en kvikmyndagerðarfólk frá Hollywood.
Efling íbúasamráðs og þátttaka íbúa Stykkishólmsbær hefur einsett sér að byggja upp þekkingu og reynslu á samráði við íbúa í ákvörðunartöku, en aðferðirnar til að ná til íbúa eru margþættar. Á síðasta ári var Stykkishólmsbær m.a. valið eitt fjögurra sveitarfélaga til þátttöku í íbúasamráðsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkefnið er liður í því að byggja upp þekkingu á aðferðum til að ná til íbúa og það í raunverulegum aðstæðum og afla þannig reynslu sem getur nýst fleiri sveitarfélögum í framhaldinu. Verkefni Stykkishólmsbæjar snýr í megindráttum að því að fá íbúa til samráðs um skipulag og útfærslu leikvalla í bænum. Vinna við verkefnið er nú hafin og fá íbúar allir tækifæri til að koma sínum skoðunum og hugmyndum á framfæri snemma á nýju ári. Af öðrum verkefnum í tengslum við eflingu þátttökulýðræðis og íbúasamráðs í Stykkishólmi má nefna umhverfisgöngu sem fram fór síðastliðið sumar í Stykkishólmi þar sem ég gekk ásamt bæjafulltrúum, formönnum umhverfis- og náttúruverndarnefndar og skipulags- og byggingarnefndar, með íbúum um hverfi Stykkishólmsbæjar. Tilgangur umhverfisgöngunnar var m.a. að vera samráðsvettvangur við íbúa og þannig efna til samtals um nánasta umhverfi, hvað mætti betur fara í frágangi og umhirðu bæjarins auk þess að miðla upplýsingum frá Stykkishólmsbæ um framkvæmdir. Á annað hundrað íbúa mættu í umhverfisgönguna sem skiptist niður á fjögur kvöld, tvær göngur á hverju kvöldi. Þátttaka jókst með hverju kvöldinu og margar gagnlegar athugasemdir komu frá íbúum auk líflegra umræðna. Umhverfisgöngunni var vel tekið og dæmi um að fólk sem hafi ekki komist í göngu hafi skilað sínum athugasemdum inn með tölvupósti. Einnig heyrðust víðsvegar ánægjuraddir og þakkir fyrir viðleitni til að heyra í bæjarbúum á þessum vettvangi. Markvisst unnið að skilvirkari og opnari stjórnsýslu ? Beinar útsendingar bæjarstjórnarfunda og opið bókhald Stykkishólmsbær var með fyrstu sveitarfélögum á landinu til að innleiða OneLandRobot hugbúnaðinn, sem er rafrænt kerfi fyrir umsóknir og samskipti um byggingaráform og byggingarleyfi, en hugbúnaðurinn var tekin fyrst í notkun á árinu 2018. Umsóknir um byggingaráform og byggingarleyfi eru því nú komnar á rafrænt form í gegnum íbúagátt Stykkishólmsbæjar og er þannig komið á rafrænum samskiptum milli Stykkishólmsbæjar og umsækjanda, sem og á milli bæjarins og hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara. Er innleiðingin einn liður í að auka á rafræna stjórnsýslu þannig að íbúar hafi tök á að sinna erindum sínum með rafrænum hætti. Á liðnu ári komst góð reynsla á þetta kerfi og óhætt er því segja að markmiðið, sem var að einfalda umsóknarferlið og bæta þjónustu við íbúa, byggingaraðila og aðra sem nýta sér þjónustu bæjarins hvað þetta varðar, hafi náðst. Stykkishólmsbær hefur á undanförnum misserum jafnframt lagt ríka áherslu á að fundargerðir bæjastjórnar og fastanefnda bæjarins séu greinagóðar og auðlesnar, m.a. til þess að auka á gagnsæi og upplýsingagjöf til íbúa. Þá hefur ávallt verið hægt að óska eftir að fá fylgiskjöl bæjarstjórnar og fastanefnda bæjarins afhent eftir að fundi lýkur, en á síðasta ári hóf Stykkishólmsbær að birta með sjálfvirkum hætti fylgiskjöl fundagerða á heimasíðu bæjarins með fundargerðum. Með þessu móti gefst íbúum tækifæri á að kynna sér hvað liggur að baki ákvörðun bæjarins. Er um að ræða enn eitt skrefið í átt til opnari stjórnsýslu og bættrar þjónustu við bæjarbúa. Á þessu ári er svo stefnt að því að opna bókhald Stykkishólmsbæjar og hefja upptökur á bæjarstjórnarfundum sem verða svo gerðar aðgengilegar á netinu. Allt framangreint eru liðir í þeim áherslum sem unnið er að og miða að því að stjórnsýsla bæjarins verði opnari, skilvirkari og gegnsærri. Framkvæmdir 2019 ? Skólalóð, dvalarheimili, hjúkrunarheimili og göngustígar Töluvert var um framkvæmdir á vegum Stykkishólmsbæjar á síðasta ári. Framkvæmdir við skólalóðina hófust í byrjun júní og gengu vel. Fyrsta áfanga verksins er lokið og þ.m.t frágangi á bílaplaninu sem heppnaðist vel og m.a. mikil ánægja meðal foreldra með nýju sleppistæðin við skólann. Veigamiklar framkvæmdir voru fyrir framan Dvalarheimilið í Stykkishólmi þar sem bílaplan var lækkað og malbikað ásamt götunni fyrir framan húsið. Aðkoma að dvalarheimilinu er því stórbætt frá því sem áður var. Gert er ráð fyrir að frágangur fyrir framan dvalarheimilið verði kláraður á þessu ári. Þá voru m.a. tveir stærstu göngustígarnir í Stykkishólmi malbikaðir í sumar auk eins lítils, en þetta var eitt skrefið að bættum samgöngum á milli hverfa í Stykkishólmi, ásamt því að göngustígar í bæjarlandinu voru lagfærðir og/eða endurbættir. Með þessum framkvæmdum var stórum áföngum náð í átt að bættum samgöngum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í Stykkishólmi og á komandi árum er gert ráð fyrir að enn betur verði gert hvað varðar göngustíga og gönguleiðir í Stykkishólmi. Þá er vert að geta þess að undurbúningur vegna uppbyggingar og um leið breytingu á hluta húsnæðis sjúkrahússins í Stykkishólmi fyrir hjúkrunarheimili miðar vel áfram, en að verkefninu koma Framkvæmdasýsla ríkisins, Ríkiseignir, Heilbrigðisráðuneytið, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands ásamt Stykkishólmsbæ. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári en þar munu líta dagsins ljós 18 ný hjúkrunarrými í stað þeirra sem eru á dvalarheimilinu. Auk þess verður aðstaða bak- og endurhæfingardeildar bætt til muna. Þessar endurbætur munu bæta þjónustu og styrkja stöðu sjúkrahússins. Byggingariðnaður og mannvirkjagerð blómstrar í Stykkishólmi Mikil gróska hefur verið í byggingariðnaði og mannvirkjagerð í Stykkishólmi undanfarin ár. Mörg ný íbúðarhús hafa risið og fleiri munu rísa á þessu ári. Við það bætist að viðhald og endurbætur á eldri húsum hafa einnig verið áberandi. Húsnæðisverð er hátt og fasteignir ganga kaupum og sölum. Það er því deginum ljósara að í Stykkishólmi vill fólk búa enda hefur íbúafjöldi farið ört vaxandi undanfarin ár. Fjöldi framkvæmda í bænum var á vegum framtaksamra Hólmara og fyrirtækja. Af þeim má nefna að húsnæði Marz- sjávarafurða, sem áður var pósthús, fékk t.a.m. andlitslyftingu, unnið er að því að breyta Langaskúr í jógahof, miklar framkvæmdir standa nú yfir á Hótel Stykkishólmi, aðstaða í stúkunni í íþróttamiðstöðinni var bætt svo um munar þegar ný sæti voru sett upp, ásamt viðhaldi og endurbótum íbúðarhúsa um allan bæ að ótöldum þeim íbúðarhúsum sem risu og/eða hafist var handa við að reisa og munu rísa á árinu 2020. Danskir dagar ganga í endurnýjun lífdaga Danskir dagar fóru friðsamlega fram dagana 15.- 18. ágúst sl. og þrátt fyrir slæmt veður gekk hátíðin afar vel. Bæjarhátíðin gengur nú í endurnýjun lífdaga en bæjarstjórn samþykkt á síðasta fundi ársins 2019 að Stykkishólmsbær komi að Dönskum dögum með beinum fjárstyrkjum annað hvert ár, fyrst á árinu 2021, og tímasetning þeirra gæti verið í kringum 21. júní 2021, á sama tíma og Sankt Hans Aften er haldin í Danmörku. Árið sem Norðurljósahátíðin er haldin getur verið haldinn svokallaður Dönsku daga-bútur þar sem ekki kemur til beinna fjárstyrkja frá Stykkishólmsbæ heldur, ef hátíðin verður haldin þau ár, verður það á forsendum íbúa og/eða fyrirtækja án beinna fjárstyrkja frá Stykkishólmsbæ. Með nýju og breyttu fyrirkomulagi verður nýju lífi blásið í þessa rótgrónu bæjarhátíð og leiðir vonandi til þess að Danskir dagar verði að tveim hátíðum, Dönskum dögum og Dönsku daga-bút, hvor með sína kosti og sérkenni. Samstarfsverkefni á sviði ferðþjónustu - Markaðssetning Stykkishólms og Snæfellsness Á síðasta ári héldu Stykkishólmsbær og félagið Efling Stykkishólms (félag atvinnurekenda í Stykkishólmi) opna fundi um samstarfsverkefni á sviði ferðaþjónustu í Hólminum. Markmið fundanna var að fá þá aðila sem sinna ferðaþjónustu í Stykkishólmi saman að samstarfsborði, varpa ljósi á það sem verið er að gera og horfa til framtíðar, sem og að ræða um framtíðarhorfur og hvað bærinn og atvinnurekendur geta gert til að efla ferðaþjónustu í Stykkishólmi enn frekar og þannig lagt enn meiri vigt á vogaskálar ferðaþjónustu á Snæfellsnesi. Í lok síðasta árs hrinti Efling Stykkishólms svo af stað markaðs- og kynningarherferðinni ?I?m a Hólmari?, m.a. til að kynna Stykkishólm sem áfangastað fyrir ferðamenn, ásamt því að setja á fót vefsíðuna visitstykkisholmur.is Með verkefninu er m.a. verið að gefa ferðamönnum innsýn í líf og starf Hólmara og hvernig sé að vera ?Hólmari? um stund og upplifa orkuna, fegurðina og allt það sem er í boði á svæðinu. Með auknum upplýsingum um svæðið og afþreyingu þess gerum við enn betur í að taka á móti og stýra umferð ferðamanna í Stykkishólmi og nágrenni. Að lokum Árið 2019 var gott, sjálfur eignaðist ég mitt þriðja barn en þess háttar tímamót eru oft áminning þess sem raunverulegu máli skiptir, fólkið í kringum okkur, fjölskylda og vinir. Á sama hátt eru áramót tímamót í lífi okkar allra og marka upphafið að einhverju nýju á sama tíma og við lítum yfir farinn veg og lærum af mistökum okkar, með nýja reynslu í farteskinu og aukin styrk til að skapa okkar eigin örlög. Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka Hólmurum og öðrum íbúum á Snæfellsnesi fyrir samstarfið og samfylgdina á liðnu ári og sendi mínar bestu óskir um farsæld á nýju ári. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar