Fara í efni

Framtíð öldrunarþjónustu í Stykkishólmi

22.04.2022
Fréttir

Starfshópur um stefnumörkun í málefnum einstaklinga 60+ hefur lokið störfum og skilað frá sér skýrslu til bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar samþykkti á 398. fundi sínum, 29. apríl 2021, að skipa starfshópinn á grundvelli tillögu og greinargerðar þar um sem og fyrirliggjandi erindisbréfs. Hópurinn var skipaður þeim Hönnu Jónsdóttur, Ingveldi Eyþórsdóttur og Sumarliða Ásgeirssyni, með hópnum starfaði jafnframt Magnús Ingi Bæringsson, tómstunda- og æskulýðsfulltrúi.

Samkvæmt erindisbréfi var meginhlutverk hópsins var að endurskoða  og/eða  marka  heildstæða  stefnu  um  þjónustu  við  einstaklinga  60+  í Stykkishólmi  til  framtíðar  í  ljósi  þeirrar  breytinga  sem  vænta  má  vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar,   þróunar í velferðar- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og flutningi hjúkrunarheimilisins í Stykkishólmi frá Skólastíg að Austurgötu.

VINNA STARFSHÓPS

Nefndin hélt 12 formlega fundi, þar af voru fundir með íbúum í búseturéttaríbúðunum, starfsmönnum og nefndarmönnum sem koma að þjónustu aldraðra, bæjarstjóra, hönnuðum og byggingafulltrúa bæjarins. Einnig var haldinn opinn íbúafundur þar sem farið var yfir starf hópsins og óskað eftir skoðunum bæjarbúa varðandi framhaldið. Aftanskini félagi eldriborgara var einnig haldið vel upplýstu um vinnu starfshópsins.
Hópurinn fór einnig í vettvangsferð í Hveragerði og Þorlákshöfn til að skoða aðstöðu og þjónustuframboð þar.

MIÐSTÖÐ ÖLDRUNARÞJÓNUSTU VERÐI BYGGÐ UPP Á SKÓLASTÍG 14

Starfshópurinn leggur til aðgerðaáætlun þar sem tíundaðar eru 45 aðgerðir til að efla þjónustu við aldraða.
Hópurinn leggur m.a. til að húsnæði að Skólastíg 14 verði nýtt sem þjónustukjarni fyrir eldra fólk, þar verði hannaðar íbúðir á efri og neðri hæð ásamt því að á neðri hæð verði sameiginlegt rými notað sem þjónustumiðstöð eldri borgara. Þá leggur hópurinn til að a.m.k. einn starfsmaður verði í húsnæðinu. Einnig er lagt til að horft verði til stækkunar á þjónustunni yfir í húsnæði tónlistarskólans, þegar hann flytur úr núverandi húsnæði.

LEGGJA ÁHERSLU Á AÐ RÁÐINN VERÐI STJÓRNANDI VIÐ HVE Í STYKKISHÓLMI

Hópurinn leggur áherslu á að með tilfærslu hjúkrunarrýma dvalarheimilisins til HVE verði stjórnandi ráðinn yfir starfsstöð HVE í Stykkishólmi sem sinnir rekstri og gefst þá innsýn og svigrúm til að standa vörð um hagsmuni starfstöðvarinnar í Stykkishólmi.

AUKIN SAMVINNA

Starfshópurinn leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn frá ríkinu til að efla almenna heimahjúkrun og koma á fót sérhæfðri heimahjúkrun. Jafnframt leggur hópurinn ríka áherslu á aukna samvinnu heimahjúkrunar, félagsþjónustu og heimsóknavina til að bæta veitta þjónustu.

EFTIRSÓKNARVERT AÐ VERJA EFRI ÁRUM Í HÓLMINUM

Í Skýrslunni er áhersla lögð á uppbyggingu almennra íbúða fyrir eldri borgara eða framboð lóða sem henta fyrir eldri borgara og að tekið sé tillit til þessa í skipulagsvinnu bæjarins, hvort sem Stykkishólmsbær hyggst byggja íbúðirnar eða aðrir. Í ljósi fjölgunar í hópi 60 ára og eldri og til að brúa bilið þar til fólk sækir um íbúð að Skólastíg 14, leggur starfshópurinn til að skipulagt verði hverfi þar sem úthlutun lóða væri skilyrt eða skilgreint fyrir 60 ára og eldri. Til að auðvelda fjárfestingu og uppbygginu mætti heimila tímabundna leigu til yngra fólks þar til eftirspurn fólks 60 ára og eldri væri til staðar. Starfshópurinn telur mikilvægt að styrkja stöðu bæjarins sem heilsueflandi samfélags þannig að eftirsóknarvert þyki að eldast í Stykkishólmi.

?TAKA HANA MEÐ?

Ýmsar hugmyndir komu fram við vinnu skýrslunnar og má t.a.m. finna í skýrslunni hugmyndir frá Gunnlaugi Lárussyni. Gunnlaugur, húsasmíðameistari, kom hugmyndum sínum til starfshópsins en þær snúa að því að bæta einni hæð ofan á Skólastíg 14 undir þjónustuíbúðir fyrir eldriborgara. Í greinargerð Gunnlaugs tíundar hann aðkallandi viðhaldsverkefni við Skólastíg 14 og þykir honum koma athugunar að bæta einni létthæð ofan á húsið í leiðinni og vitnar í gamlan vin sinn sem greip þannig til orða þegar létt var yfir mönnum - ?taka hana með?. Ljóst er að útsýnið úr þeim íbúðum sem Gunnlaugur stingur uppá yrði stórbrotið til allra átta og þyrfti engum að láta sér leiðast að horfa út um glugga þar.

Skýrsla starfshóps um stefnumörkun í málefnum einstaklinga 60+ er aðgengileg á vef Stykkishólmsbæjar.

Getum við bætt efni síðunnar?