Frábær stemning í Stykkishólmi síðastliðna helgi
Landsmót UMFÍ 50+ var haldið í Stykkishólmi dagana 23.-25. júní síðastliðna. Að sögn Gunnhildar Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóra HSH, gekk framkvæmd móts og undirbúningur þess frábærlega. „Svona mót er ekki haldið nema með öflugum sjálfboðaliðum sem skiluðu sínu mjög vel. Fjöldi þátttakenda var yfirmeðallagi í ár, eða um 350 manns“ – segir Gunnhildur.
Danskir dagar voru haldnir samhliða Landsmótinu og því margt um að vera í Hólminum þessa helgina. „Það hefði verið gaman að fá meiri þátttöku í opnu greinarnar, vonandi tekst UMFÍ að efla það á komandi mótum. En mótin eru frábær tækifæri fyrir hlaupa- og hjólahópa til að fjölmenna á og láta til sín taka“ - segir Gunnhildur.
Veðurspá Magnúsar gekk eftir
Sólin lét sig ekki vanta þrátt fyrir slæma spá veðurstofunnar. Magnús Bæringsson, tómstunda- og æskulýðsfulltrúi Stykkishólms, hafði spáð blíðu í Stykkishólmi landsmótshelgina þrátt fyrir að veðurstofa Íslands væri ekki á sama máli. Spá Magnúsar gekk eftir ef frá er talin lítilsháttar hitaskúrir í lok laugadags og sunnudagsmorgun en brakandi blíða var allan föstudaginn og langt fram eftir laugardeginum.
Að lokum vill Gunnhildur koma þakklætiskveðju til styrktaraðila, sjálfboðaliða og annarra sem komu að mótinu með einum eða öðrum hætti. Jafnframt segir hún sveitarfélagið eiga hrós skilið fyrir sitt framlag.
Danskir dagar velheppnaðir
Danskir dagar voru haldnir samhliða Landsmóti UMFÍ 50+. Fjölmargt fólk var í bænum og mikið um að vera. Viðburðir hátíðarinnar voru vel sóttir og veðrið lék við heimamenn og gesti stærri hluta helgarinnar. Þar sem mikið álag var á tjaldsvæðinu um helgina var afar kærkomið að fá rigningu á sunnudeginum til að vökva gras og annan gróður á svæðinu. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvar vinna nú að taka niður skraut og ganga frá eftir viðburðaríka helgi.