Fara í efni

Fjölgun smita í Stykkishólmi

22.09.2020
Fréttir

Viðbragðsteymi Stykkishólmsbæjar fundaði með sóttvarnaryfirvöldum á Vesturlandi í dag. Fram kom að COVID-19 faraldurinn hefur á síðustu dögum færst í aukana. Á Vesturlandi eru nú 11 með staðfest smit og í einangrun. Á fundinum var ákveðið að grípa til varúðarráðstafana vegna fjölgunar smita í Stykkishólmi.

HÓPSÝKING Í STYKKISHÓLMI

Það er talsverð breyting milli daga í Stykkishólmi. Nú eru 7 skráðir í einangrun í Stykkishólmi, þ.e. með greind COVID-19 smit, en einn af þeim mun vera í einangrun í Reykjavík. Allir þessir einstaklingar tengjast og hafa umgengist hóp af fólki. Alls voru 18 einstaklingar í sóttkví í Stykkishólmi í gær, en hluti þeirra hafa nú þegar útskrifast. Í ljósi fjölgunar smita í Stykkishólmi er hins vegar búist er við töluverðri fjölgun einstaklinga í sóttkví í dag. Einnig er aukin skimun nú í undirbúningi.


TÍMABUNDNAR RÁÐSTAFANIR STYKKISHÓLMSBÆJAR MEÐAN ÓVISSA RÍKIR

Fyrirhugaðar eru tímabundnar ráðstafanir hjá Stykkishólmsbæ í ljósi aðstæðna í samfélaginu og mun starfsemi stofnana Stykkishólmsbæjar færast nær því sem var í vor þegar faraldurinn var í meiri útbreiðslu, a.m.k fram að helgi á meðan smitrakningarteymi vinnur að því að ná sambandi við þá einstaklinga sem sæta þurfa sóttkví og niðurstöður skimana liggja fyrir.

Grunnskólinn í Stykkishólmi tekur, frá og með morgundeginum, upp hólfaskiptingu líkt og gert var í vor. Nemendur í 1. -7. bekk koma með hádegismat að heiman. Skólahald mun hefjast kl. 10:00 þar sem töluverðar tilfæringar þurfa að eiga sér stað innan stofnunarinnar.

Leikskólinn í Stykkishólmi tekur einnig upp hólfaskiptingu frá og með morgundeginum, en starfstími leikskóla helst óbreyttur.

Tónlistaskóli Stykkishólms - Nám fyrir börn á grunnskólaaldri helst óbreytt en tekin verður upp fjarkennsla fyrir eldri nemendur. 

Dvalarheimili aldraðra hefur tímabundið lokað fyrir heimsóknir en það á einnig við um búseturéttaríbúðir.

Íþróttamiðstöð/sundlaug Stykkishólmsbæjar ? Aukin áhersla á sóttvarnir, en ekki hefur á þessari stundu verið tekin ákvörðun um frekari aðgerðir.

Amtsbókasafn Stykkishólms ? Aukin áhersla á sóttvarnir. Aðalinngangur lokaður, en gengið inn að aftan.

Ráðhús Stykkishólmsbæjar og aðrar stofnanir loka tímabundið fyrir gestum.

Félagsmiðstöðin Xið Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar leggst af fram yfir helgi.
Íbúum er bent á að fylgjast vel með tilkynningum frá skólum og öðrum stofnunum Stykkishólmsbæjar.
PERSÓNUBUNDNAR SMITVARNIR STERKASTA VÖRNIN

Mikið álag er nú á smitrakningarteyminu sem vinnur hörðum höndum að því hafa samband við þá einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví.

Í ljósi aðstæðna er fólk hvatt til að hafa hægt um sig, fylgjast grannt með þróun mála og forðast eins og hægt er að koma saman að óþörfu.

Fólk sem tekið hefur þátt í stórum samkomum, s.s. á borð við réttir og annað, er hvatt til að fara sérstaklega varlega og herða sínar persónubundnu sóttvarnir.

Getum við bætt efni síðunnar?