Fallvarnarblakkir settar upp við klifurvegginn í Stykkishólmi
Fimmtudaginn 30. mars sl. mætti í Hólminn Benjamin Mokry frá Klifurhúsinu Reykjavík til að kynna íþróttakennara Grunnskólans fyrir notkun á fallvarnarblökkum, sjálfvirkum búnaði sem tryggir öryggi klifrara í klifurvegnum. Búnaðurinn var gjöf frá fyrirtækjunum Agustson, Sæfell og Þórsnes. Arnar Hreiðarsson forstöðumaður íþróttamannvirkja sá svo um að koma búnaðinum fyrir. Eru þessum aðilum færðar kærar þakkir fyrir þeirra framlag til klifurs í Stykkishólmi.
Fallvarnarblakkirnar eru festar efst uppi í klifurveggnum, úr þeim liggur taug sem er fest í þann sem klifrar. Með tilkomu þeirra er nú hægt að klifra efst upp í vegginn án aðstoðar frá öðrum, þ.e.a.s. sá sem klifrar þarf ekki aðstoðarmann með taug. Ef klifrara skrikar fótur og missir takið tekur nýji búnaðurinn yfir og lætur viðkomandi síga rólega til jarðar.