Enn er stöðugt ástand í Stykkishólmi - engin ný smit
Undanfarna tíu daga hafa engin smit greinst í Stykkishólmi, enn eru þó 12 í einangrun en engin í sóttkví.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir tilkynnti nýjar tillögur að hertum aðgerðum á höfuðborgarsvæðinu á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Tillögur sóttvarnalæknis kveða meðal annars á um að tveggja metra reglan taki aftur gildi á höfuðborgarsvæðinu, fjöldatakmörk verði ennþá 20 manns. 50 manna fjöldatakmörk takmörk við útfarir og 30 manna takmörk í háskólum og framhaldsskólum, veitingahúsum verði leyft að hafa opið til 21 en ekki 23 og að íþróttamótum verði frestað um tvær vikur. Þá er íbúm svæðisins beint á að halda sig heima eins og unnt er og draga úr heimsóknum til viðkvæmra einstaklinga.
Rétt er að þeir sem heimsækja þurfa höfuðborgarsvæðið hafi ofangreint í huga.
FÖRUM ÁFRAM VARLEGA
Íbúar Stykkishólmsbæjar eru enn á ný minntir á að huga vel að persónubundnum smitvörnum og fylgjast vel með þróun mála.
Þá eru þeir sem hafa einkenni COVID-19 hvattir til að hafa samband símleiðis við heilsugæslustöð sem metur þörf á sýnatöku.
Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á covid.is.