Fara í efni

Enn er óbreytt staða smita í Stykkishólmi

28.09.2020
Fréttir

Engar skimanir fóru fram í gær og er staða smitaðra í Stykkishólmi því óbreytt enn sem komið er. Í dag fóru 11 einstaklingar sýnatöku og er niðurstöðu þeirra sýna að vænta á morgun. Þá eru jafnframt fyrirhugðar sýnatökur á morgun.

Staðan er því óbreytt frá því í gær, en á laugardag greindust tvö ný smit tengd Stykkishólmi (eitt formlega skráð á laugardag, en hitt á sunnudag), en hvorugur einstaklinganna sem greindust um helgina voru í skráðri sóttkví. Á föstudag greindust tvö ný smit tengd Stykkishólmi sem og tveir á fimmtudag.

Alls eru nú 13 skráðir í einangrun í Stykkishólmi með greind COVID-19 smit og 20 skráðir í sóttkví.

VARÚÐARRÁÐSTAFNIR Í GILDI - PERSÓNUBUNDNAR SMITVARNIR STERKASTA VÖRNIN

Áður auglýstar varúðarráðstafanir eru enn í gildi, en upplýsingar um varúðarráðstafnir Stykkishólmsbæjar má finna hér.

Staðan verður endurmetin á morgun í samráði við aðgerðarstjórn almannavarna á Vesturlandi.

Íbúar enn á ný minntir á að huga vel að persónubundnum smitvörnum, hafa hægt um sig, fylgjast grannt með þróun mála og forðast eins og hægt er og að koma saman að óþörfu.

Þá eru þeir sem hafa einkenni COVID-19 hvattir til að hafa samband símleiðis við heilsugæslustöð sem metur þörf á sýnatöku.

Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á covid.is. 

Getum við bætt efni síðunnar?