Engin ný smit í Stykkishólmi þriðja daginn í röð ? 12 sýnatökur í morgun
Ekkert nýtt COVID-19 smit greindist í Stykkishólmi síðasta sólahring. Staðan er því enn óbreytt frá því um helgina. Í dag fóru 12 einstaklingar sýnatöku og er niðurstöðu þeirra sýna að vænta á morgun. Enn sem komið er enginn skráður í sýnatöku á morgun.
Sem áður eru því 13 skráðir í einangrun í Stykkishólmi með greind COVID-19 smit og eru nú 17 skráðir í sóttkví.
VARÚÐARRÁÐSTAFANIR ENN Í GILDI
Viðbragðsteymi Stykkishólmsbæjar fundaði fyrr í dag og var ákveðið að halda varúðarráðstöfunum í gildi enn um sinn. Þetta verður svo endurskoðað með tilliti til niðurstaðna morgundagsins.
FÖRUM ÁFRAM VARLEGA
Íbúar enn á ný minntir á að huga vel að persónubundnum smitvörnum, hafa hægt um sig, fylgjast grannt með þróun mála og forðast að koma saman að óþörfu.
Þá eru þeir sem hafa einkenni COVID-19 hvattir til að hafa samband símleiðis við heilsugæslustöð sem metur þörf á sýnatöku.
Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á covid.is.