Ellefta ferðin á eldfjallið
Þetta byrjaði allt með eldgosinu í Eyjafjallajökli fyrir 10 árum síðan. Eiginlega vorum við alveg viss um að gosið hafi hafist vegna þess að við sungum svo kröftuglega þennan veturinn lagið Eldinn úr tónverkinu Þúsaldarljóð eftir þá bræður Sveinbjörn I. og Tryggva M. Baldvinssyni. Þar er sungið um náttúruöflin eld, vatn, loft og jörð og heillaðist hópurinn af kraftinum í eldinum í texta Sveinbjarnar.
Eldurinn logar
langt niðri í jörðu
leitar að opinni slóð.
Æðir um ganga,
grefur sér leiðir,
glóandi, ólgandi blóð.
Spýtist úr gígum
með geigvænu öskri,
grásvörtum bólstrum af reyk.
Leiftrandi steinar,
logandi hraunið,
lifandi kraftur að leik.
En handann við sortann,
háskann og mökkinn,
sem heldimmur leggst yfir ból,
dansar á himni,
dátt yfir landi,
dirfskunnar leiftrandi sól.
Krafturinn í þessum söng gæti hugsanlega hafa komið af stað eldgosi, allavegana veltum við því mikið fyrir okkur þarna fyrir 10 árum síðan kennarinn og skapandi nemendurnir með ímyndunaraflið á fullu. Í dag eru þessir fyrrum nemendur leikskólans sem var fyrsti hópurinn á eldfjallið orðnir 15 ára, sumir 16. Þeir sökktu sér í fróðleikinn og fylgdust spenntir með fréttum, náðu sér í fræðibækur á bóksafnið, bjuggu til spúandi eldfjöll úr flestum þeim efnivið sem finna mátti í leikskólanum og eitt leiddi af öðru, við myndum stefna á að klífa eitt eldfjall um vorið. Í raun er þetta lýsing á svo mörgu öðru í leikskólastarfinu. Hópurinn fær brennandi áhuga á einhverju efni, fer á bólakaf í það, kannar á alla mögulegu vegu og ákveður svo saman hvað skuli gera meira úr því. Stundum er það framkvæmanlegt og stundum ekki, en við getum ekki vitað það nema kanna það. Síðan þá hefur ferð á Gráukúlu verið fastur liður í útskriftarferð elstu nemenda leikskólans á vorin, en Gráakúla er eldfjallið sem valið var vorið 2010 til að skoða.
Nú í vor var því komið að elleftu ferðinni á Gráukúlu. Fjall sem við höfum alltaf fyrir augunum og keyrum framhjá þegar við förum suður fyrir fjall. Þetta telst ekki hátt fjall 211 metrar yfir sjávarmáli en er gríðarleg áskorun fyrir börn sem eru flest ennþá 5 ára (bráðum 6). Ferðirnar hafa alltaf gengið vel og á því var ekki undantekning í þetta sinn. Þátttaka aðstandenda barnanna hefur aukist með árunum og þykir eftirsóknarvert að komast með. Sem betur fer því þetta væri erfitt í framkvæmd ef þeirra nyti ekki við. Kærar þakkir fyrir það þið fjölmörgu foreldrar, ömmur, afar, frænkur og frændur sem hafið hjálpað til þessi 10 ár.
Við förum á einkabílum upp að eldfjallinu og aldrei hefur vantað bíla. Eitt sinn kom þetta ekki nógu skýrt fram í undirbúningsumræðunni og nemendi okkar hélt að við myndum ganga alla leið upp í fjall. Svolítið langt en hann ætlaði sko alveg að láta sig hafa það.
Við þurfum að fara eftir reglum. Líkt og við lærum í útikennslunni þá þurfum við að hugsa um náttúruna og passa að skilja ekki eftir okkur mikil ummerki. Þeir sem hafa farið í flestar ferðirnar þessi 10 ár hafa tekið eftir því að ýmislegt hefur breyst á og við eldfjallið og ágangur hefur augljóslega aukist.
Stundum hafa börnin orðið smeik uppi á toppnum en þó aðallega um mömmu sína, hún má ekki detta. Flestir verða hissa þegar upp er komið. Gígurinn er dýpri en við höfðum búist við, bílarnir sem keyra þjóðveginn fyrir neðan svo agnarsmáir og útsýnið dásamlegt. Heilmikil upplifun fyrir bæði smáa og stóra. Og nestið, það skiptir alltaf höfuð máli í öllum ferðum með börnum. Auðvitað, við þurfum nú mikla orku í allt sem við viljum gera.
Þegar niður er komið tekur hraunið við, fallegir berggangar og ótal myndir sem sjá má í hrauninu. Það þarf ekki mikið til að vekja ímyndurnaraflið hjá börnunum sem rétt gefa sér tíma til að fá smá nestisbita áður en haldið er áfram niður á Hraunflöt. Þangað höfum við stefnt síðustu árin og höfum fengið afnot af skálanum og svæðinu þar í kring. Þökkum við eigendum fyrir að taka ár eftir ár vel í bón okkar um að fá lykilinn lánaðann.
Eftir að hafa borðað góðan hádegismat út undir berum himni, farið í fjársjóðsleit og könnunarleiðangra um svæðið er haldið heim á leið eftir enn eitt ævintýrið, allir stoltir og glaðir yfir að hafa sigrað eldfjallið.
Elísabet Lára Björgvinsdóttir, leikskólakennari í Leikskólanum í Stykkishólmi.