Danskir dagar og Landsmót UMFÍ 50+ framundan
Viðburðarík helgi er framundan í Stykkishólmi og óhætt að gera ráð fyrir að margt verði um manninn þar sem Danskir dagar verða haldnir samhliða Landsmóti UMFÍ 50+ komandi helgi. Veðurspá er góð næstu daga og má því ætla að margir sæki tjaldsvæðið í Stykkishólmi heim í vikunni og um helgina. Undanfarið hefur ýmis undirbúningur staðið yfir fyrir helgina og má þar á meðal nefna endurbætur og fjölgun á rafmagnstenglum á tjaldsvæðinu.
Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar og vinnuskólans vinnur nú að því að snyrta bæinn fyrir helgina og undirbúa fyrir viðburði hér og þar. Þá má einnig benda bæði gestum og heimamönnum á Hundagarðinn Stellulund sem opnaði 16. júní síðastliðinn. Þar er gott fyrir ferfætta gesti að spretta úr spori, sýna sig og sjá aðra á öruggu, afgirtu svæði.
Landsmót 50+
Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og kynningu á ýmiskonar hreyfingu. Mótið hefur farið fram árlega síðan 2011. Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri, vakin er þó sérstök athygli á því að sumir dagskrárliðir eru opnir fólk á öllum aldri. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum. Þátttökugjald er aðeins 5.500kr.
Smelltu hér til að skoða dagskrá mótsins
Danskir dagar
Danskir dagar er elsta bæjarhátíð á Íslandi en hún var fyrst haldin árið 1994 og var þá hugsuð til að lengja ferðamannatímabilið. Hátíðin er rótgróin liður í skemmtanalífi Hólmara og dagskráin afar vegleg í ár. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi en á meðal dagskrárliða er garðpartý, brúðuleikhús, búningahlaup, skottmarkaður, tunnulest, bjór- og freyðivínshlaup, miðnæturbál í Fúluvík og stórdanskleikur með Stjórninni og Herra Hnetusmjör í íþróttamiðstöðinni.