Danskir dagar gengnir í garð
Danskir dagar eru gengnir í garð en hátíðin fagnar nú 30 ára afmæli. Danskir dagar voru fyrst haldnir árið 1994 og er með elstu og rótgrónustu bæjarhátíðum landsins. Hátíðin hefur tekið ýmsum breytingum í gengum tíðina en árið 2019 var ákeðið að halda Danska daga annað hvert ár og færa tímasetningu þeirra fram í júní svo hægt væri að tengja hana við Jónsmessuna, Sankt Hans aften.
Danskir dagar voru síðast haldnir samhliða Landsmóti UMFÍ 50+ í júní á síðasta ári. Í ljósi þess að nú í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu hátíðinni þótti ekki annað hægt en að halda afmælishátíð Danskra daga. Sveitarfélagið hefur undanfarin ár samið við Félag atvinnulífs í Stykkishólmi um utanumhald Danskra daga og var sama fyrirkomulag á því nú í ár líkt og áður. Sérstök undirbúningsnefnd var mynduð svo hægt væri að gera afmæli Danskra daga hátt undir höfði. Nefndina mynda þau Hjördís Pálsdóttir, Kristjón Daðason, Ólöf Inga Stefánsdóttir, Björn Ásgeir Sumarliðason og Þorbjörn Geir Ólafsson.
Dagskráin í ár er vegleg og ber með sér nostalgíukeim af tilefni afmælisins. Fjölmargt er í boði fyrir börn á öllum aldri, má þar nefna tivoli sem opnar kl 14:00 í dag á túninu við Lions húsið. Setningarathöfn fer fram kl. 16:15 í Hólmgarðinum í dag en eftir athöfnina stígur Leikhópurinn Lotta á svið, aðgangur ókeypis. Hverfagrillin hefjast svo kl. 18:00, en víða hefur mikið púður verið lagt í hverfaskreytingar í ár.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tekur þátt í hátíðarhöldum á laugardeginum og ávarpar hátíðargesti á hafnartónleikum á stóru bryggju. Tónleikarnir hefjast kl. 16:30 en ávarp forseta verður um 17:00. Fjölmargt er í boði fyrr um daginn og má gera ráð fyrir iðandi mannlífi í bænum. Um kvöldið verður svo bryggjuball þar sem fjöldi tónlistarfólks koma fram, þar á meðal Jørgen Olsen sem er annar Olsen bræðranna sem unnu Eurovision keppnina eftirminnilega með laginu „Fly on the Wings of Love“ árið 2000. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem danskur Eurovisionfari heimsækir Hólminn á Dönskum dögum en árið 2005 tók Jakob Sveistrup lagið fyrir mikinn mannfjölda sem sótti hátíðina það árið. Að loknu bryggjuballi verður viðstöddum boðið uppá flugeldasýningu áður en stórdasleikur með Stuðlabandinu hefst í íþróttahúsinu.
Íbúar og gestir eru hvattir til að kynna sér dagskána vel og njóta alls þess besta sem Hólmurinn og Hólmarar hafa fram að færa.