Fara í efni

Dagur leikskólans 6. febrúar 2025

06.02.2025
Fréttir

Hér að neðan má lesa grein Sigrúnar Þórsteinsdóttur, leikskólastjóra, í tilefni af degi leikskólans sem er í dag, 6. febrúar.

Í leikskólanum í Stykkishólmi eru núna 32 starfsmenn í ýmsum stöðum og stöðugildum. Það eru bæði konur og karlar, ung og eldri, með allskonar menntun og fjölbreyttan uppruna.

Við njótum góðs af því að vera með kennara með leikskólakennaramenntun, grunnskólakennaramenntun og allskonar aðra menntun eins og menntun í iðjuþjálfun, heimspeki, stærðfræði, tungumálakennslu, ferðamálafræði, næringarfræði, viðskiptafræðimenntun, skrifstofuskólamenntun, stúdentspróf af ýmsum brautum með styttri og lengri diplómur og mörg okkar enn í námi.

Í leikskólanum vinnur fólk frá 5 þjóðlöndum, Íslandi, Póllandi, Filipseyjum, Króatíu og Bosníu sem talar fjöldan allan af tungumálum. Við erum með fólk með skerta starfsgetu og einn grunnskólanema úr 9 bekk sem kemur nokkra klukkutíma á viku. Við erum með fólk sem er alið upp í sveit, í stórborgum, smábæjum, afskekktum héruðum og í Stykkishólmi, allt er þetta mikill mannauður sem glæðir skólastarfið hjá okkur og alla kennslu.

Hér vinnur fólk sem hefur áður unnið við ræstingu, í grunnskólum, hótelum, bakaríum, íþróttamannvirkjum, sambýlum, leikskólum, frystihúsum, fiskvinnslum, skrifstofum og svo mætti lengi telja. Hér vinnur fólk sem er barnlaust og aðrir sem eiga mörg börn, samanlagt eigum við 61 barn og fullt af barnabörnum. Í hópnum eru t.d. tvær tvíburamæður, foreldrar sem eiga fjögur börn og þrjú börn, tvö börn og eitt barn. Fólk er ýmist gift, í sambúð eða einhleypt.

Við eigum ýmiskonar áhugamál, við t.d. prjónum, hlaupum, göngum, hjólum, skautum, syndum, heklum, lesum, hlustum, skíðum, horfum, spilum, pússlum og saumum. Við erum í skátunum og kirkjukórnum, Lions og Eyrbyggjusögufélaginu, Kvenfélagi, Berserkjum og óformlegum spilaklúbbum, göngufélögum og saumaklúbbum.

Hér eru fjárbændur, hestafólk, grænmetisræktendur, fólk sem á hunda og fólk sem á ketti og önnur gæludýr.

Öll komum við saman með okkar mismunandi reynslu og þekkingu og sköpum kennarahópinn í leikskólanum í Stykkishólmi.

Fyrir þau öll er ég þakklát alla daga, líka þegar það er fullt tungl 😊

 

Sigrún Þórsteinsdóttir, leikskólastjóri.

Leikskólinn í Stykkishólmi
Getum við bætt efni síðunnar?