Fara í efni

Breytingar á stjórnskipulagi og störfum hjá sveitarfélaginu

07.02.2024
Fréttir Stjórnsýsla

Innra stjórnskipulag hefur verið til umræðu og umfjöllunar í stjórnsýslu sveitarfélagsins um nokkurt skeið. Lagt var upp með það markmið að skýra stjórnskipulag, ábyrgð og verklag hjá sveitarfélaginu og breyta skipulaginu með það fyrir augum að nýta sem best núverandi mannauð.

Ráðgjafarsvið KPMG var fengið til aðstoðar við verkefnið og vann það í nánu samráði við sveitarfélagið. Tillaga KPMG að skipulagsbreytingum var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í desember sl. og var samþykkt samhljóða.

Um er að ræða breytingar, með einum eða öðrum hætti, á verkefnum a.m.k. 9 starfsmanna sveitarfélagsins, en breytingarnar höfðu einnig áhrif á ákveðna starfstitla samhliða breyttum starfslýsingum.Breytingarnar tóku gildi á áramótum.

Um vinnuna

KPMG tók viðtöl við starfsfólk sveitarfélagsins sem skipulagsbreytingar kæmu til með að hafa hvað mest áhrif á. Auk þess funduðu fulltrúar KPMG með fulltrúum sveitarfélagsins til að fá góða innsýn inn í helstu áskoranir og tækifæri. Í framhaldinu stilltu ráðgjafar upp drögum að starfslýsingum þeirra starfsmanna sem um ræðir ásamt tillögu að umræddum skipulagsbreytingum.

Tóku ráðgjafar undir með sveitarfélaginu með að skynsamlegt væri að breyta skipulaginu með það fyrir augum að nýta betur núverandi mannauð og styrkleika hvers og eins. Þá var það m.a. mat ráðgjafanna að tækifæri væri til að fækka starfsmönnum sem heyrðu beint undir bæjarstjóra og dreifa þeirri ábyrgð sem því fylgir. Þá voru ákveðnir starfsmenn sem heyrðu beint undir bæjarstjóra en voru samt sem áður undir verkstjórn annarra starfsmanna. Með því að gera þá starfsmenn sem fara með verkstjórn að næstu yfirmönnum þeirra töldu ráðgjafar að hægt væri að skýra betur ábyrgð og hlutverk stjórnenda.

Helstu breytingar

Helstu breytingar á stjórnskipulagi og störfum hjá sveitarfélaginu snéru að Íþróttamiðstöð Stykkishólms, þjónustumiðstöð (áhaldahúsi og eignasjóði), Stykkishólmshöfn og skipulags- og byggingarmálum. Hér fyrir neðan verður stuttlega gerð skil á þeim breytingum.

Þjónustumiðstöð og höfn

Meðal helstu breytinga má nefna að Arnar Hreiðarsson, sem gegnt hefur stöðu forstöðumanns íþróttamannvirkja, mun framvegis ekki eingöngu sinna umsjón, viðhaldi og eftirliti með íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins heldur mun hann sinna umsjón, eftirliti og minniháttar viðhaldi í öllum eignum sveitarfélagsins á sama tíma og ábyrgð á daglegum rekstri íþróttamiðstöðvar og sundlaugar færist til íþrótta- og tómstundafulltrúa. Starfsheiti Arnars hefur verið breytt í forstöðumann eigna til að fanga betur breyttar áherslur í starfi.

Til að stuðla að aukinni samþættingu þess starfsfólks sem starfar á þjónustumiðstöð og á höfninni varð bæjarverkstjóri, Jón Beck Agnarsson, yfirmaður starfsmanna hafnarinnar, en þær breytingar taka gildi frá og með 1. apríl nk. Mun því frá þeim tíma hafnarvörður heyra undir bæjarverkstjóra, ásamt öðrum starfsmönnum áhaldahúss og verkstjórum vinnuskóla. Standa vonir til þess að breytingarnar komi til með að auka yfirsýn yfir þau viðhaldsverkefni sem falla undir umrædda starfsemi og efli þar með skilvirkni í því að sinna þeim viðhaldsverkefnum og samvinnu milli starfsfólks sveitarfélagsins.

Íþróttamiðstöð Stykkishólms

Sá hluti sem snýr að starfsemi og ábyrgð á rekstri Íþróttamiðstöðvar Stykkishólms sem heyrði áður undir Arnar Hreiðarsson mun nú heyra undir Magnús Inga Bæringsson, en starfsheiti Magnúsar var jafnframt breytt í íþrótta- og tómstundafulltrúa (áður tómstunda- og æskulýðsfulltrúi) til að fanga betur breytingar á hans störfum. Aðrar breytingar voru ekki á starfi íþrótta- og tómstundafulltrúa og því mun Magnús áfram bera ábyrgð á starfi félagsmiðstöðvarinnar, starfi ungmennaráðs, samstarfi við íþrótta- og æskulýðsfélög samhliða því að leiða rekstur íþróttamiðsvöðvar. Þá mun Magnús áfram koma að félagsstarfi aldraðra í samstarfi við forstöðumann öldrunarþjónustu.

Samhliða þessum breytingum í íþróttamiðstöð tóku Vignir Sveinsson og Sarah Jane Allard sameiginlega að sér vaktstjórn í íþróttamiðstöð.

Skipulags- og byggingarmál

Sigurður Grétar Jónasson, sem áður sinnti störfum aðstoðarmanns byggingarfulltrúa og verkefnum í þjónustumiðstöð, verður verkefnisstjóri framkvæmda og eigna. Mun hann sinna verkefnum á sviði skipulags- og byggingarmála ásamt því að vera byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa innan handar, sem og að sinna verkefnum tengdum þjónustumiðstöð. Þá mun Sigurður m.a. bera ábyrgð á samhæfingu verkefna milli eignasjóðs og áhaldahúss í samstarfi við bæjarverkstjóra og forstöðumanns eigna.

Framangreindar breytingar leiddu m.a. til þess að beinum undirmönnum bæjarstjóra fækkaði úr 15 í 11. Þá voru unnar nýjar starfslýsingar fyrir skipulags- og umhverfisfulltrúa og byggingarfulltrúa auk þeirra sem nefndir hafa verið hér að ofan. Staða byggingarfulltrúa hefur verið auglýst laus til umsóknar og er umsóknarfrestur til og með 22. febrúar 2024.

Getum við bætt efni síðunnar?