Breytingar á flokkun í Stykkishólmi og Helgafellssveit
Líkt og fram kom á íbúafundi 5. desember sl. verður innleitt nýtt flokkunarkerfi árið 2023 um land allt þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili. Flokkunum fylgja samræmdar merkingar FENÚR sem munu gilda fyrir alla flokkun á Íslandi, allar tunnur fá því nýjar límmiðamerkingar. Um er að ræða stórt framfaraskref í umhverfis- og loftslagsmálum. Flokkað verður í eftirfarandi flokka:
- Matarleifar
- Pappír og pappi
- Plastumbúðir
- Blandaður úrgangur
Stykkishólmur hefur um langa tíð verið í fararbroddi í endurvinnslu- og flokkunarmálum. Í janúar 2008 hófust íbúar handa við að flokka allt sorp fyrstir landsmanna í þriggja tunnu kerfið. Nú í lok árs 2022 bætist fjórða tunnan við, en hún er ætluð undir plast. Hlutverk grænu tunnunnar breytist og í hana fer aðeins pappír og pappi. Íbúar fá því nýja tunnu, merkta fyrir plast. Eldri tunnurnar verða merktar í vor, þar sem ekki þykir vænlegt að festa límmiða á tunnurnar í frosti. Notkun á fjórðu tunnunni hefst 21. desember 2022. Íbúum á litlum heimilum sem ekki hugnast að hafa fjórar tunnur geta óskað eftir tvískiptri tunnu fyrir plast og pappa með því að hafa samband við Ráðhús sveitarfélagsins.Tvískipa tunnan er þó dýrari kostur og með henni gefst minna pláss til flokkunar.
Með því að flokka pappa og plast í sitt hvora tunnuna næst betri flokkun en með tvískiptri tunnu þar sem hætt er við því að flokkarnir blandist saman. Umhverfisvænni og hagkvæmasti kosturinn er því að taka inn fjórðu tunnuna en með henni hafa íbúar einnig meira pláss til flokkunar.
Rafræn klippikort
Á árinu 2023 verður tekið upp rafræn klippikort fyrir gámasvæðið. Kortin tryggja íbúum aðgang að svæðinu. Kortið er 16 skipta klippikort sem endurnýjast árlega og er hluti af úrgangshirðugjaldi. Hvert klipp gildir fyrir 0,25 rúmmetra sem samsvarar 240 lítra heimilistunnu. Ef íbúi klárar sín 16 skipti á innan við ári getur hann keypt áfyllingu hjá sveitarfélaginu. Íbúum verður tilkynnt þegar kortin verða tekin í notkun en fram að því er óbreytt fyrirkomulag á svæðinu.
Grenndarstöðvar
Nýjar grenndarstöðvar verða einnig settar upp í sveitarfélaginu, þar geta íbúar losað sig við málma, gler og textíl. Grenndarstöðvarnar eru í smíðum og verða settar upp á næsta ári, en fram að því fara málmar og gler í Snoppu og textíl í gám Rauða krossins hjá B. Sturluson ehf.
Sjá einnig nánari upplýsingar hér.