Fara í efni

Breyting á deiliskipulagi Reitarvegs tekur gildi

02.02.2024
Fréttir Skipulagsmál

Breyting á deiliskipulagi Reitarvegs vegna Sæmundarreits 8 tekur gildi 14. febrúar nk.

Þann 25. janúar sl. samþykkti bæjarstjórn Stykkishólms tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Reitarvegar vegna stækkunar á byggingarreit fyrir sólskála á Sæmundarreit 8.

Húsið var reist árið 1906 og stóð áður við Laugaveg 27b í Reykjavík og nýtur samkvæmt því friðunar vegna aldurs sbr. lög um menningarminjar nr. 80/2012. Í því felst að óheimilt er að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað. Leitað var umsagnar Minjastofnunar, sem veitti jákvæða umsögn.

Tillagan var grenndarkynnt 9. október til 6. nóvember fyrir lóðarhöfum Sæmundarreits 4, 6 og 8a í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust frá lóðarhafa Sæmundarreits 4. Skipulagsnefnd taldi athugasemdina réttmæta og lagði til minniháttar breytingar. Þann 10. janúar sl samþykkti nefndin uppfærða tillögu.

Skipulagsbreytingin tekur gildi þann 14. febrúar nk með birtingu auglýsingar um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda.

Vakin er athygli á málskotsrétti skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála nr. 130/2011, en þar er kveðið svo á að þeir sem lögvarða hagsmuna eiga að gæta er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir. Kærufrestur er einn mánuður frá áætluðum birtingardegi í B- deild Stjórnartíðinda eða til og með 14. mars 2024.

Deiliskipulagsbreytinguna má sjá hér að neðan

DSK - breyting

Getum við bætt efni síðunnar?