Fara í efni

Ályktun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar vegna stöðvunar veiða á grásleppu

06.05.2020
Fréttir

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar mótmælti kröftuglega, á fundi sínum nú í morgun, ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að stöðva fyrirvaralaust grásleppuveiðar við landið.

Bæjarstjórnin skoraði jafnframt á Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða heimild til grásleppuveiða á innanverðum Breiðafirði og fjölga veiðidögum þar til samræmis við áður gildandi reglugerð. Þá skoraði bæjarstjórn á Alþingi að endurskoða strax núverandi fyrirkomulag á grásleppuveiðum til að tryggja að þessi staða komi ekki upp aftur.

Í reglugerðinni sem um ræðir kemur fram að grásleppuveiðar verði bannaðar frá og með miðnætti aðfararnótt sunnudagsins 3. maí 2020. Hins vegar verði heimilt að gefa út leyfi til grásleppuveiða í allt að 15 daga til þeirra sem stunduðu grásleppuveiðar árin 2018 eða 2019 á Breiðafirði.

Ályktun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar má lesa í heild sinni hér að neðan.

ÁLYKTUN BÆJARSTJÓRNAR STYKKISHÓLMSBÆJAR VEGNA STÖÐVUNAR VEIÐA Á GRÁSLEPPU

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar mótmælir kröftuglega ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að stöðva fyrirvaralaust grásleppuveiðar við landið.

Stykkishólmshöfn hefur verið einn helsti löndunarstaður grásleppu á landinu um árabil. Af 5.000 tonna heildarafla í grásleppu á síðasta ári var 30% hans veiddur við innanverðan Breiðafjörð. Í Stykkishólmi var 22% af öllum grásleppuafla landsins landað. Hlutfall grásleppu í lönduðum heildarafla í Stykkishólmshöfn nam 35% árið 2019.  

Í ljósi núverandi stöðu efnahags- og atvinnumála vegna kórónuveirunnar er um að ræða gríðarlegt viðbótaráfall fyrir samfélagið í Stykkishólmi. Gildir það um grásleppusjómennina, vinnslurnar og þeirra starfsfólk auk þess sem þetta hefur veruleg áhrif á tekjur sveitarfélagsins í gegnum hafnarsjóð og þau störf sem hugsanlega munu tapast. Þá eru viðskiptasambönd og samningar vinnsluaðila í hættu á að glatast. Takmörkunin mun að óbreyttu hafa áhrif á 150 störf hér á svæðinu og ætla má að um sé að tefla hálfan milljarð í verðmætasköpun.

Nú sem aldrei fyrr þarf samfélagið stuðning opinberra stofnana til að takast á við þessar fordæmalausu aðstæður. Nauðsynlegt er að skoða frá ýmsum hliðum þá möguleika sem eru fyrir hendi til að forða frekara efnahagstjóni. Mikilvægt er að nýta þær bjargir sem standa til boða í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið um stjórn fiskveiða.

Til að vernda æðarvarp á svæðinu hefur tíðkast í áratugi að grásleppuveiðar við Breiðafjörð hefjast ekki fyrr en 20. maí ár hvert. Sú náttúruvernd hefur mætt almennum skilningi og verið talin til fyrirmyndar. Dagarnir fimmtán sem veiða má við Breiðafjörð frá og með 20. maí bæta ekki upp þá 44 daga sem sjómenn gerðu ráð fyrir að geta gert út.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skorar á Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða heimild til grásleppuveiða á innanverðum Breiðafirði og fjölga veiðidögum þar til samræmis við áður gildandi reglugerð. Í því sambandi vekur bæjarstjórnin m.a. athygli á eftirfarandi:

  • Árlegur grásleppuafli við innanverðan Breiðafjörð hefur verið 1.050 tonn undanfarin fimm ár.
  • Stofnvísitala grásleppu vex milli mælinga og engin vísindaleg gögn hafa komið fram um að stofnstærð grásleppu standi ekki undir þeirri nýtingu sem fyrri viðmiðunargildi ráðgjafarreglu gerði ráð fyrir.
  • Eins og bent hefur verið á af þeim sem til þekkja er full ástæða til að draga í efa reiknistuðla Hafrannsóknastofnunar við uppreikning á tunnumagni fyrri ára sem leiddi til skerðingar á ráðgjöf stofnunarinnar á leyfilegu heildaraflamarki í ár.
  • Mikil grásleppugengd og afli við Norðurland bendir til að stofnin sé stærri en Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir í sinni ráðgjöf.
  • Fyrir liggur að vinnslurnar á svæðinu hafa sölumarkað fyrir sambærilegt magn og var á síðasta ári.
  • Hafrannsóknastofnun hefur margoft endurskoðað útgefnar aflaheimildir í ljósi nýrra upplýsinga. Má þar nefna heimildir til loðnuveiða í gegnum tíðina.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skorar jafnframt á Alþingi að endurskoða strax núverandi fyrirkomulag á grásleppuveiðum þannig að þessi staða geti ekki komið upp aftur. Það getur ekki staðist til frambúðar að grásleppusjómenn á innanverðum Breiðafirði, sem fara síðastir af stað, þurfi að bíða í von og óvon eftir því hvernig veiðin gangi á öðrum svæðum. Að óbreyttu er hætta á að hagsmunir grásleppusjómanna og æðarbænda á Breiðafirði skarist og ógni þar með sátt sem hefur ríkt um vernd æðarfugls og náttúru við Breiðafjörð í áratugi.

 


Getum við bætt efni síðunnar?