Áhrif vinnustöðvunar félagsmanna innan BSRB í Stykkishólmi
Verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BSRB hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur halda áfram mánudaginn 5. júní þar sem ekki náðust samningar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB. Hafa því félagsmenn Kjalar lagt niður störf frá og með deginum í dag í sundlaug, leikskóla, Ráðhúsi og þjónustumiðstöð.
- Sundlaug Stykkishólms: Sundlaugin er lokuð ótímabundið frá og með mánudeginum 5. júní vegna vinnustöðvunar starfsfólks, þar til samningar nást. Verkfallið er ótímabundið og því liggur ekki fyrir hve lengi sundlaugarnar verða lokaðar. Forstöðumaður, Arnar Hreiðarsson, er eini starfandi starfsmaður Íþróttamiðstöðvar í verkfallinu. Símanúmer hjá Arnari er 8656232.
- Leikskólinn í Stykkishólmi: Áhrif vegna vinnustöðvunar starfsfólks eru misjöfn milli deilda, en það ræðst af því í hvaða stéttarfélagi viðkomandi starfsfólk deilda eru í. Foreldrar fá upplýsingar beint frá leikskólastjóra hvernig starfsemi leikskóla gengur fyrir sig á meðan verkfalli stendur.
- Ráðhúsið í Stykkishólmi: Ráðhúsið í Stykkishólmi verður opið. Vinnustöðvun starfsmanna getur hins vegar haft áhrif á símsvörunar, sem og svörun og vinnslu erinda.
Vinnustöðvun í sundlaug er ótímabundin, en á leikskólum og í Ráðhúsi er vinnustöðvun boðuð til 5. júlí. Þegar samningar nást tekur við hefðbundinn opnunartími og starfsemi á ný.
Staða viðræðna
BSRB hefur krafist sömu laun fyrir sömu störf, en sambandið hefur bent á að forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB beri alfarið ábyrgð á því að félagsmenn þeirra fengu ekki launahækkanir um síðustu áramót líkt og forysta Starfsgreinasambands Íslands (SGS) samdi um árið 2020. Bæði BSRB og SGS bauðst árið 2020 kjarasamningur með gildistíma út september 2023. Með þeim samningi fylgdi ný launatafla (launatafla 5) sem tók gildi 1. janúar 2023. Forysta SGS samþykkti slíkan samning en forysta BSRB hafnaði samningnum alfarið en samdi þess í stað um styttri samningstíma, til 31. mars 2023, án launatöflu 5.
Á vef sambandsins kemur fram að samninganefnd Sambandsins hafi ítrekað lagt fram ný tilboð sem forysta BSRB hefur hafnað en það síðasta inniheldur í megin atriðum eftirfarandi:
- 50.000 kr. til 60.000 kr. hækkun lægstu launa á mánuði frá 1. apríl 2023, sem nær til um helmings félagsmanna.
- 55.700 kr. persónuuppbót þann 1. maí 2023.
- 130.900 kr. persónuuppbót þann 1. desember 2023.
Þá kemur á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga að stjórn þess vísi allri ábyrgð á verkfallsaðgerðum á forystufólk BSRB og að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi á undanförnum vikum skrifað undir kjarasamninga við fjölda stéttarfélaga. Meðal annars hefur verið skrifað undir samninga við ellefu aðildarfélög BHM, Eflingu, KVH, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara.
Sjá nánar hér: