Afkoma sveitarfélagsins umfram væntingar samkvæmt ársreikningi 2022
Á bæjarstjórnarfundi þann 4. maí 2023 var ársreikningur Sveitarfélagsins Stykkishólms fyrir árið 2022 tekinn til fyrri umræðu. Síðari umræða fór fram á fundi bæjarstjórnar 11. maí sl.
Rekstrartekjur samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta námu 2.271 millj. kr. á árinu en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.947 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 80 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 99 millj. kr. Rekstrartekjur A og B hluta jukust um 11% milli ára. Rekstrargjöld jukust um 7% milli ára og eru 2% lægri en áætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Stykkishólms samþykkti á fundi sínum þann 27. október 2022 viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2022. Með samþykkt viðaukans var tekin ákvörðun um að leggja niður Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi með framlagi til sjóðsins og færslu eigna hans og skulda annars vegar yfir í Eignasjóð og hins vegar í Aðalsjóð. Heildaráhrif þessa á rekstrarniðurstöðu A hluta sveitarfélagsins eru neikvæð sem nemur 113 millj. kr. en um er að ræða einsskiptis aðgerð sem hafði veruleg áhrif á afkomu A hluta sveitarfélagsins á árinu 2022.
Veltufé frá rekstri nam á árinu 2022 244 millj. kr. samanborið við 208 millj. kr. árið áður. Veltufé frá rekstri var 42 millj. kr. umfram fjárhagsáætlun með viðaukum sem gert hafði ráð fyrir að veltufé frá rekstri næmi 202 millj. kr. Handbært fé í árslok nam 135 millj. kr. og lækkaði um 36 millj. kr. á árinu.
Fjárfestingahreyfingar A og B hluta á árinu 2022 námu 108 millj. kr. Lántökur á árinu námu 100 millj. kr. og afborganir langtímalána voru 207 millj. kr.
Skuldaviðmið A og B hluta Sveitarfélagsins Stykkishólmur í árslok 2022 var 107% en rekstrarjöfnuður síðastliðinna þriggja ára er neikvæður um 218 millj. kr.
Sveitarfélagið innleiddi á árinu 2022 reglugerðarbreytingu nr. 230/2021 á 20. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga. Breytingin felur í sér að samstarfsverkefni eru nú færð inn í samantekin reikningsskil sveitarfélagsins miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélagsins á rekstri samstarfsverkefnanna. Í ársreikningnum er hlutdeild sveitarfélagsins í einstökum liðum rekstrar og efnahags þessara samstarfsverkefna færð til samræmis við ábyrgð sveitarfélagsins. Í ársreikninginum hefur samanburðarfjárhæðum við árið 2021 verið breytt til samræmis.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir ársreikningnum á síðasta fundi bæjarstjórnar og sagði að sveitarfélagið byggi á traustum grunni, en á sama tíma liggja fyrir ýmsar áskoranir. „Áherslur bæjarstjórnar á árinu 2022 og á yfirstandandi ári er að skapa áfram eftirsóknarvert umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki, standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins, sérstaklega um hag barna og fjölskyldna þeirra og eldra fólks, og sækja af ábyrgð fram með samfélagslega mikilvægum fjárfestingum innviða sem komi til með að skapa svigrúm til eflingar samfélagsins á svæðinu á sama tíma og stefnt er að því að tryggja að skuldaviðmið og skuldahlutföll séu að lækka markvisst á tímabilinu. Þessar áherslur og markmið bæjarstjórnar endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi og samþykktum áætlunum, en það er alltaf áskorun frá degi til dags að tryggja að þessi markmið nái fram að ganga.“ sagði Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri á fundinum.
„Áfram þarf að leggja áherslu á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri bæjarins á sama tíma og þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið. Bæjarstjórn og stjórnendur sveitarfélagsins þurfa að vera og eru vakandi fyrir ákveðnum þáttum í rekstri sem endurspeglast í þessum ársreikningi. Það þarf að huga að því og vinna markvisst að því að ná enn meira upp veltufé frá rekstri, sem þarf að standa undir afborgunum skulda og skuldbindinga líkt og endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi, þannig að rekstur geti áfram staðið undir greiðslu skulda og nauðsynlegum fjárfestingum.“ sagði Jakob að endingu.