Afbragðsgóð þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi
Nú á dögunum bárust niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir nemendur í grunnskólum landsins vorið 2024. Góð þátttaka grunnskólabarna og ungmenna í íþróttum og tómstundum vakti mikla og jákvæða athygli og ekki síst þátttaka í starfi félagsmiðstöðva.
Góða staða í Stykkishólmi
Þátttaka barna og ungmenna í tómstunda- og íþróttastarfi í Stykkishólmi er afar góð samkvæmt könnuninni sem framkvæmd var síðastliðið vor. Niðurstöður sýna að af 180 nemendum Grunnskólans í Stykkishólmi stunda 146 nemendur íþróttir og 114 nám í Tónlistarskóla Stykkishólms, sem óhætt er að segja mjög jákvæðar tölur. Af þeim 144 nemendum sem stunda íþróttir hjá Snæfell stunda 65% körfubolta, 48% frjálsar, 29% knattspyrnu, 7% badminton og 1% líkamsrækt.
Hlutfall grunnskólanema sem stunda íþróttir í Stykkishólmi er langt yfir meðaltali á því sem þekkist á landsvísu og spilar þar lykilhlutverk það góða starf sem Ungmennafélagið Snæfell stendur fyrir. Það er mikill fjársjóður fólgin í því fyrir lítið sveitarfélag að búa að því öfluga og óeigingjarna starfi.
Þá hefur sveitarfélagið lengi státað af öflugum tónlistarskóla sem niðurstöður könnunarinnar undirstrika einnig vel.
Mikil aðsókn í félagsmiðstöðina
Í samanburði við önnur sveitarfélög vakti athygli hve hátt hlutfall grunnskólanema í Stykkishólmi sækir í félagsmiðstöðina. Félagsmiðstöðin X-ið er starfrækt í gamla skólastjórabústaðnum að Skólastíg 11a en þar fer fram öflugt félagsstarf fyrir nemendur 5.- 10. bekkjar.
Hér að neðan má sjá súlurit sem sýna þátttöku ungmenna í starfi félagsmiðstöðva. Bláa súlan sýnir meðaltal af vesturlandi, græna meðaltal af landinu öllu og sú appelsínugula í miðjunni sýnir svör úr Grunnskólanum í Stykkishólmi.
Óumdeilt forvarnagildi
Forvarnagildi íþrótta og tómstundastarfs er óumdeilt og hafa fjölmargar íslenskar og erlendar rannsóknir sýnt að þátttaka ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á frávikshegðun. Þau ungmenni sem leggja reglulega stund á íþróttir eða aðra hreyfingu eru síður líkleg til að sýna neikvætt atferli. Íþróttastarf, líkt og annað skipulagt tómstundastarf í umsjón ábyrgra aðila, hefur víðtækt forvarnargildi gegn frávikshegðun, líkt og afbrotum, ofbeldi og vímuefnaneyslu og tengist þar að auki íþróttaþátttaka einnig betri námsárangri, betri líðan, aukinni sjálfsvirðingu og jákvæðari líkamsmynd.
Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar eru afar jákvæðar fyrir okkur Hólmara og góð staðfesting á því öfluga starfi sem hér fer fram og mikilvægt að hlúa að því starfi.– Segir Magnús Ingi Bæringsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi sveitarfélagsins.