Fara í efni

Aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur í Stykkishólmskirkju

22.11.2019
Fréttir

Karlakór Reykjavíkur mun heimsækja Hólminn og flytja aðventudagskrá sína í Stykkishólmskirkju laugardaginn 30. nóvember kl. 16.00. Einsöngvari á tónleikunum verður Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona en með í för verða einnig fastagestir kórsins frá liðnum aðventutónleikunum; orgelleikarinn Lenka Mátéova, trompetaleikararnir Eiríkur Örn Pálsson og Guðmundur Hafsteinsson auk pákuleikarans Eggerts Pálssonar.

Stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur er Hólmarinn Friðrik S. Kristinsson sem í ár fagnar 30 ára starfsafmæli með kórnum. Hann hóf störf sem raddþjálfari og aðstoðarstjórnandi árið 1989 og tók við sem aðalstjórnandi kórins, af Páli Pamplicher Pálssyni, árið 1991. Með þessum tónleikum efnir kórinn loforð frá árinu 2008 þegar kórinn hélt tónleika í Stykkishólmskirkju til styrktar orgelsjóðs kirkjunnar og lofaði að halda aðventutónleika í kirkjunni þegar orgelið væri komið upp.

Hólmarar og Snæfellingar allir eru boðnir velkomnir á tónleikana, aðgangur ókeypis.

Getum við bætt efni síðunnar?