Gömlu húsin
Metnaður bæjarbúa fyrir því að varðveita umhverfi sitt og sögu endurspeglast í gamla miðbænum, en oft er vísað til miðbæjar Stykkishólms sem safns gamalla húsa. Með gerð húsakönnunar árið 1978 og ákvörðun um friðun og endurbyggingu fjölmargra elstu húsanna markaði bærinn skýra stefnu í skipulagsmálum þar sem húsafriðun ræður ríkjum. Stykkishólmsbær fékk Skipulagsverðlaunin 2008, veitt af Skipulagsfræðifélagi Íslands, fyrir deiliskipulag miðbæjar, stefnu og framfylgd hennar.
Húsin í bænum gefa Stykkishólmi sérstakt yfirbragð þar sem tekist hefur að varðveita gömlu bæjarmyndina. Tilvalið er að fá sér göngu um bæinn og fræðast í leiðinni, en hér er að finna gönguleið með upplýsingum um húsin.