Vel gengur að bólusetja í Stykkishólmi
Bólusetningar gegn COVID-19 eru í fullum gangi í Stykkishólmi og ganga vel að sögn Brynju Reynisdóttur, yfirhjúkrunarfræðings heilsugæslunnar í Stykkishólmi. „Við bólusettum 180 manns í síðustu viku og 95 í dag en það voru bæði endurbólusetningar og frumbólusetningar.“
Heilsugæslan í Stykkishólmi hefur nú þegar bólusett ríflega helming þeirra íbúa Stykkishólms sem hafa aldur til eða hátt í 800 manns.
Brynja segir algengt að fólk verði vart við einhverjar aukaverkanir en engu að síður séu langflestir jákvæðir í garð bólusetninga.
Á meðal þeirra sem boðaðir voru í bólusetningu í dag var Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Hægt er að fylgjast með framvindu bólusetningar á landsvísu á covid.is.