Útskrift úr Leikskólanum í Stykkishólmi
Hin formlega útskrift elstu nemenda leikskólans fór fram í Stykkishólmskirkju 27. maí s.l. Átján nemendur útskrifast í sumar og fluttu þau metnaðarfulla dagskrá fyrir fjölskyldur sínar í útskriftinni sem samanstóð af sönglögum og þulum.
Leikskólastjórar afhentu börnunum kveðjuskjöl og birkiplöntur í tilefni þessara tímamóta og grunnskólinn færði þeim viðurkenningu fyrir þátttöku í vorskólanum í maí og einnig glaðning frá versluninni Kram. Útskriftarnemarnir færðu væntanlegum grunnskólakennurum sínum mynd sem þau höfðu málað af sér. Myndin mun taka á móti þeim í skólastofu þeirra í grunnskólanum þegar þau mæta í haust og tengja þannig táknrænt skólana saman.