Fara í efni

Uppbygging nýs hjúkrunarheimilis í Stykkishólmi boðin út

26.05.2021
Fréttir

Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd Heilbrigðisráðuneytisins og Stykkishólmsbæjar, hefur óskað eftir tilboðum í uppbygginu nýs Hjúkrunarheimilis að Austurgötu 7, en bæjarstjórnir Stykkishólmsbæjar hafa síðustu þrjú kjörtímabil unnið samhent að verkefninu. Þá hefur verið skipaður starfshópur sem hefur það að markmiði að marka heildstæða stefnu um þjónustu við aldrað fólk í Stykkishólmi til framtíðar í ljósi þeirrar breytinga sem vænta má í málefnum aldraðra vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, þróunar sem er að eiga sér stað í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og flutningi hjúkrunarheimilisins á sjúkrahúsið á árinu 2022.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir vegna uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis í Stykkishólmi hefjist í sumar og að 18 ný hjúkrunarrými muni líta dagsins ljós á næsta ári í stað þeirra sem eru á Dvalarheimilinu, en verklok heildarverks eru áætluð 31. maí 2022. Við undirbúning framkvæmdanna hefur verið haft samráð við HVE um að festa ákveðnar vörður á verktímanum til að tryggja sem best starfsskilyrði í húsinu. 

Útboðið er auglýst á útboðsvef ríkiskaupa: http://utbodsvefur.is/hve-stykkisholmi-endurnyjun-a-hjukrunarheimili/

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skipaði á fundi sínum í apríl sl. starfshóp sem endurskoða á stefnumörkun í málefnum einstaklinga 60+ með sérstakri áherslu á að marka heilstaða stefnu um þjónustu aldraðra vegna þeirra breytinga sem vænta má vegna flutnings hjúkrunarheimilisins í Stykkishólmi frá Skólastíg 14 á Austurgötu 7 (St. Franciskussjúkrahúsið) á árinu 2022. Þá er starfhópnum ætlað að leggja mat á tillögur að breyttu skipulagi húsnæðisins að Skólastíg 14 eftir flutning hjúkrunarheimilis, meta hvort og þá hvaða þjónusta skuli veitt, líkt og fram kemur í erindisbréfi starfshópsins. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum næsta haust og skili bæjarstjórn tillögum sínum ásamt greinargóðri skýrslu í samræmi við hlutverk nefndarinnar, en starfshópinn skipa Sumarliði Ásgeirsson, Hanna Jónsdóttir og Ingveldur Eyþórsdóttir. 

Getum við bætt efni síðunnar?